• fös. 12. okt. 2012
  • Landslið

Frá blaðamannafundi eftir sigur á Albönum

Lars Lagerbäck á blaðamannafundi eftir leik við Albaníu
IMG-20121012-01096

Landsliðsþjálfarinn Lars Lagerbäck sat fyrir svörum á blaðamannafundi eftir leikinn við Albani. Fyrst var hann spurður út í tilfinningarnar eftir fyrsta sigurinn í Albaníu. „Leikurinn var mjög erfiður og við vorum heppnir. Aðstæður voru afara erfiðar fyrir bæði lið, rennandi blautur völlur og í rauninni á floti á sumum stöðum. Ég ber virðingu fyrir albanska liðinu og tel að þeir geti borið höfuðið hátt, því þetta hefði getað farið á hvorn veginn sem var. Albanía er með líkamlega sterka leikmenn og þeir börðust gríðarlega."

Hefði átt að stöðva leikinn að hans mati, hefði jafnvel ekki átt að hefja seinni hálfleikinn, vegna vætu á vellinum? „Ég var á þeirri skoðun í hálfleik, já. Og ítalski þjálfari Albananna var sammála mér. En á endanum var ákveðið að láta reyna á þetta og ég er auðvitað ánægður með lokaniðurstöðuna".

Albanskir blaðamenn vildu meina að munurinn á liðunum hafi verið sá að Ísland átti fleiri toppklassaleikmenn og var Gylfi Þór Sigurðsson nefndur sérstaklega. Er Lars sammála því? „Gylfi er með einn besta hægri fótinn í heiminum og hann gerði gæfumuninn í dag með sínu marki beint úr aukaspyrnu".

Aðspurður um byrjunina í riðlinum sagði hann „Við erum komnir með 6 stig. Auðvitað hefði ég heldur viljað vera með 9 stig eftir þrjá leiki, en ég er sáttur. Það geta allir unnið alla í þessum riðli, ég hef sagt það áður, og Albanía á eftir að fá stig hér á heimavelli. Ef þeir vinna Slóveníu á þriðjudaginn þá eru þeir komnir aftur í pakkann."