Sigurður Ragnar - "Þetta verða jafnir og erfiðir leikir"
Í dag var dregið um það hvaða þjóðir mundu mætast í umspili fyrir úrslitakeppni EM kvenna 2013 sem fram fer í Svíþjóð. Ísland mun mæta Úkraínu í þessum umspilsleikjum og verður fyrri leikurinn ytra, 20. eða 21. október, en sá síðari á Laugardalsvelli, 24. eða 25. október. Heimasíðan fór á stúfana og spurði landsliðsþjálfarann, Sigurð Ragnar Eyjólfsson, hvernig honum litist á mótherjana?
"Mér líst ágætlega á þennan drátt. Ég átti mér ekkert draumalið því öll liðin í umspilinu eru sterk. Þetta verður bara flott áskorun fyrir okkur. Úkraína fór í síðustu lokakeppni EM í Finnlandi 2009. Þær voru svo að vinna Finnland í Finnlandi fyrir nokkrum dögum síðan og það eru flott úrslit hjá þeim, en þær hafa líka misstigið sig. Af úrslitum þeirra að dæma undanfarin ár í landsleikjum eru þær með svipað sterkt lið og við eða örlítið veikara. Þetta verða því jafnir og erfiðir leikir en okkur hlakkar til að takast á við krefjandi verkefni."