Norður Írar lagðir í Laugardalnum
Íslendingar lögðu Norður Íra í undankeppni EM í dag með tveimur mörkum gegn engu á Laugardalsvelli og tryggðu þar með sæti í umspili fyrir úrslitakeppni EM í Svíþjóð 2013. Ísland er í efsta sæti riðilsins fyrir síðustu umferðina og dugar jafntefli gegn Norðmönnum í síðasta leiknum sem fram fer í Osló á miðvikudaginn.
Íslenska liðið hafði tögl og haldir allan leikinn og sigurinn öruggur þó munurinn hafi ekki verið meiri. Leikurinn fór rólega af stað þó svo íslenska liðið hafi veri með yfirhöndina. Fyrsta markið kom á 37. mínútu þegar Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði með góðum skalla eftir fyrirgjöf frá Fanndísi Friðriksdóttur. Ekki hafði verið mikið af opnum færum fram að markinu en forystan fyllilega verðskulduð. Þannig var staðan þegar gríski dómarinn flautaði til leikhlés.
Íslenska liðið hélt frumkvæðinu í seinni hálfleik líka og bættu við marki á 53. mínútu. Katrín Ómarsdóttir sendi þá út á Fanndísi sem lagði boltann fyrir sig og smellti honum með vinstri fæti í fjærhornið, glæsilegt mark. Stelpurnar fengu nokkur góð færi til að bæta við marki, áttu m.a. skot í þverslá og stöng en fleiri urðu mörkin ekki.
Sigurinn fleytir íslenska liðinu að nýju í toppsæti riðilsins en Norðmenn höfðu dvalið þar um stundarsakir eftir sigur á Belgum í dag, 3 - 2. Framundan er því úrslitaleikur um efsta sæti riðilsins sem gefur beint sæti í úrslitakeppninni í Svíþjóð 2013. Íslenska liðinu dugar jafntefli gegn Norðmönnum en með sigri hrifsa heimamenn efsta sætið. Norska liðið hefur verið mjög erfitt heim að sækja til þessa í keppninni, hafa farið með sigur í öllum fjórum heimaleikjunum með markatöluna 22 - 2.
Leikurinn fer fram á Ullevål vellinum í Osló, miðvikudaginn 19. september og hefst kl. 17:30 að íslenskum tíma.
Nú þurfa allir að leggjast á eitt - Áfram Ísland!