Dauðafæri og ÞÚ skiptir máli !
Íslenskar knattspyrnukonur hafa á síðustu árum stimplað sig inn í hóp þeirra bestu í Evrópu. Yngri landslið okkar hafa spilað í úrslitakeppnum Evrópumóta og staðið sig með miklum sóma og þá spilaði A landslið kvenna í fyrsta skipti í úrslitakeppni Evrópumóts landsliða í Finnlandi 2009 eins og við öll munum eftir.
Í dag stöndum við frammi fyrir því að A landsliðið okkar er í sannkölluðu dauðafæri við að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni sem fram fer í Svíþjóð á næsta ári og þar með annarri úrslitakeppninni í röð. Með því að tryggja okkur í úrslitakeppnina erum við um leið að sýna það og sanna að við eigum heima í hópi þeirra bestu í Evrópu, bæði A landsliðið og þau yngri. Því er mikilvægið mjög mikið fyrir framtíð íslenskrar knattspyrnu og íslenskra knattspyrnukvenna.
Á morgun, laugardag, spila stelpurnar við Norður Írland á Laugardalsvelli. Sigur í þeim leik mun tryggja okkur umspil um laust sæti í úrslitakeppninni. Á miðvikudag spila stelpurnar við Noreg í Noregi. EF við vinnum á morgun mun Noregsleikurinn skera úr um hvort liðið sigrar riðilinn og fær þar með farseðlana til Svíþjóðar strax í hendurnar.
„Stuðningur þinn skiptir máli“ er gömul klisja sem við heyrum alltaf og vitum að er rétt. En stundum er bara svo gott að sitja heima og horfa á leikinn í sjónvarpinu, sérstaklega ef veðrið er ekki sem best. En stuðningur ÞINN skiptir stelpurnar miklu máli. Að ÞÚ komir á völlinn og takir þátt í leiknum með þeim. Klappar þegar vel gengur, kallar hvetjandi orð þegar betur má fara en fyrst og fremst ert á staðnum, sýnir í verki stuðning þinn og takir þátt í ferðalaginu sem er vonandi rétt að byrja ... ferðalaginu til Svíþjóðar 2013.
Sjáumst öll á vellinum á morgun, á leiknum sem skiptir öllu máli og verður að vinnast. Upplifum saman stemminguna á vellinum og styðjum við bakið við stelpunum okkar. Á miðvikudaginn getum við svo öll hjúfrað okkur undir teppi í sófanum góða og horft á Noregur – Ísland í sjónvarpinu og hrópað áfram Ísland heima í stofu.
Áfram Ísland, áfram stelpur !
Guðrún Inga Sívertsen