A karla - Tap á Kýpur
Strákarnir í karlalandsliðinu biðu lægri hlut gegn Kýpverjum í undankeppni HM í kvöld en leikið var í Kýpur. Lokatölur urðu 1 - 0 fyrir heimamenn eftir að markalaust hafði verið í leikhléi.
Íslensku strákarnir náðu ekki að fylgja eftir góðum leik gegn Norðmönnum síðastliðinn föstudag og voru Kýpverjar í bílstjórasætinu lungann úr leiknum. Íslendingar fengu þó ágætis færi, tvívegis komst Birkir Bjarnason í góð færi í fyrri hálfleiknum og í þeim síðari átti Alfreð Finnbogason þrumuskot í þverslá. En sigur heimamanna í heildina sanngjarn en sigurmark leiksins kom á 57. mínútu. Um fimm mínútum fyrir leikslok fékk Sölvi Geir Ottesen að líta rauða spjaldið hjá belgískum dómara leiksins og þyngdist róðurinn enn meir við það.
Það er mánuður í næsta verkefni, 12. október, hjá landsliðinu en þá verða Albanir sóttir heim. Fjórum dögum síðar, 16. október, koma svo Svisslendingar í heimsókn á Laugardalsvöll og er miðasala hafin á þann leik.
Ísland er sem stendur í 2. sæti riðilsins en Sviss hefur unnið báða sína leiki og Slóvenía tapað fyrstu tveimur leikjum sínum. Önnur úrslit í gærkvöldi í riðlinum urðu þau að Norðmenn lögðu Slóveníu, 2 - 1 og Sviss lagði Albaníu, 2 - 0.