• þri. 11. sep. 2012
  • Landslið

U17 kvenna - Tap gegn Tékkum í síðasta leik riðlakeppninnar

U17-kvenna---Varamenn-gegn-Tekkum
U17-kvenna---Varamenn-gegn-Tekkum

Stelpurnar í U17 kvenna léku í dag lokaleik sinn í riðlakeppni EM en riðill þeirra var leikinn í Slóveníu.  Mótherjarnir, Tékkar, höfðu betur 0 - 2 eftir að markalaust hafði verið í leikhléi.  Íris Björk Eysteinsdóttir sendi okkur eftirfarandi umfjöllun um leikinn.

Unglingalandslið Íslands, skipað stúlkum 17 ára og yngri tapaði 2:0 fyrir Tékklandi í lokaleik síns riðils í Evrópukeppninni sem haldið er í Slóveníu. Mikill hraði var í leiknum strax í byrjun og ljóst að þær tékknesku væru vanari hitanum en þær íslensku en um 30 stiga hiti var á meðan leiknum stóð.

Ísland átti þó hættulegri færi til að byrja með. Katrín Rúnarsdóttir skapaði sér frábært færi í upphafi leiks með því að stíga út varnarmann Tékka af miklu harðfylgi. Hún var komin ein í gegn í teignum vinstra megin en var lítið eitt of lengi að athafna sig. Tékkneska liðið sótti hart að marki Íslands en vörnin stóð vaktina með prýði. Í kjölfarið fylgdu fínar skyndisóknir hjá Íslandi sem skiluðu nokkrum hornspyrnum. Hrafnhildur Hauksdóttir tók nokkrar eitraðar spyrnur og munaði tvívegis litlu að þær höfnuðu í marki Tékka. Ísland átti einnig myndarlegar sóknir þegar boltinn náði að ganga manna á milli. Ein þeirra endaði með frábærri sendingu Andreu Rán Snæfeld á Rakel Jónsdóttur sem átti hnitmiðað skot með vinstri fæti en markmaður varði naumlega alveg neðst í hægra horninu.

Í upphafi síðari hálfleiks skoraði Tékkland mark eftir mikinn darraðadans í teig íslenska liðsins. Íslensku stelpurnar náðu ekki að hreinsa almennilega og boltinn barst á Tékka sem ætlaði að gefa fyrir markið en boltinn hafnaði á ævintýralegan hátt í markhorninu fjær.

Íslensku stelpurnar reyndu hvað þær gátu til að jafna en áttu í nokkrum erfiðleikum með að skapa sér hættuleg færi. Þær tékknesku aftarlega og dúndruðu fram við hvert tækifæri og pressuðu. Þær tóku sér einnig óratíma í öll föst leikatriði. Íslenska liðið komst því lítt áleiðis. Svo fór að Tékkar bættu við marki í lok uppbótartíma þar sem íslenska liðið hafði riðlað spili sínu dálítið til að freista þess að skora.

Íslensku stúlkurnar gengu afar svekktar af velli enda alls ekki síðri aðilinn í leiknum. Liðið hafnaði í 2. sæti í riðlinum og á enn möguleika á sæti í milliriðli en efsta sæti hvers riðils fer áfram ásamt besta árangri í öðru sæti. Riðlarnir eru samtals 11 svo að liðið sem vinnur hvern riðil fer sjálfkrafa áfram. Auk þess fara 5 lið með bestan árangur í öðru sæti áfram í milliriðil. Íslenska liðið á því nokkuð góðan möguleika á að komast áfram vegna hægstæðrar markatölu. Ekki verður ljóst hvaða lið fara áfram fyrr en öll lið hafa lokið keppni í lok október.

U17-kvenna---Byrjunarlid-gegn-Tekkum

U17-kvenna---Varamenn-gegn-Tekkum