• lau. 08. sep. 2012
  • Landslið

U17 kvenna - Öruggur sigur gegn Eistlandi

U17-kvenna-byrjunarlid-gegn-Eistlandi
U17-kvenna-byrjunarlid-gegn-Eistlandi

Unglingalandslið kvenna skipað leikmönnum 17 ára og yngri vann í dag öruggan 5:1 sigur á Eistlandi í riðlakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu. Þetta var dagur nýliðanna sem sáu að mestu um markaskorun.

Hulda Ósk Jónsdóttir, sem lék sinn fyrsta landsleik í dag skoraði fyrsta markið eftir frábæra sendingu frá Hrafnhildi Hauksdóttur á 18. mínútu. Hrafnhildur sem er vinstri bakvörður gaf frábæra sendingu í gegnum vörnina og Hulda gerði vel úr þröngu færi og setti boltann framhjá markmanninum með nettu skoti. Alda Ólafsdóttir skoraði annað mark leiksins í sínum öðrum landsleik og þeim fyrsta í byrjunarliði eftir fallegt spil þar sem Rakel Jónsdóttir skipti snyrtilega um kant með því að senda boltann á Oddnýju Hafsteinsdóttur, markaskorara úr síðasta leik. Oddný var fljót að hugsa og setti boltann á Öldu sem skoraði. Frábært samspil hjá íslensku stelpunum.

Ísland var mun betri aðlilinn í leiknum og fékk fjöldan allan af hornspyrnum og var það aðeins tímaspursmál hvenær eitt þeirra endaði í markinu. Það var svo miðvörðurinn Heiðdís Sigurjónsdóttir sem skoraði með góðu skoti eftir eina af mörgum fallegum hornspyrnum Hrafnhildar. Það var svo Rakel sem toppaði frammistöðu íslenska liðsins í frábærum fyrri hálfleik með því að skora í uppbótartíma eftir langa sendingu frá Kötlu Rún Arnórsdóttur.

Nýliðarnir héldu áfram að setja mark sitt á leikinn og á 9. mínútu síðari hálfleiks skoraði Petrea Björt Sævarsdóttir fimmta mark Íslands eftir sendingu margnefndrar Rakelar. Petrea sem kom inná í hálfleik í sínum fyrsta landsleik og skaut góðu skoti sem hafnaði í netinu.

Nokkuð dró af íslenska liðinu í síðari hálfleik enda 28 stiga hiti og sól sem stelpurnar eru ekki vanar. Þær sköpuðu sér þó heilmörg færi og oft vantaði bara herslumuninn til að klára í markið. Boltinn gekk oft fallega á milli manna ásamt því að þær sýndu flott tilþrif með því að sóla einn eða tvo Eistlendinga þegar þeim datt það í hug.

Eistland skoraði svo undir lokin glæsilegt mark úr aukaspyrnu sem var óverjandi fyrir Hafdísi Erlu Gunnarsdóttur sem hafði komið inná í hálfleik í sínum fyrsta landsleik og stóð sig með prýði. Fallegt mark sem lítið var hægt að gera við.

Í hinum leiknum í riðlinum vann Tékkland 4:0 sigur á Slóvenum. Ísland situr því í efsta sæti á markatölu en á þriðjudag verður hreinn úrslitaleikur gegn Tékkum um toppsætið og örugga ferð áfram í milliriðil en bæði Ísland og Tékklandi hafa unnið báða sína leiki í riðlinum.

Staðan í riðlinum