• fös. 07. sep. 2012
  • Landslið

Sætur sigur á Norðmönnum í Laugardal

Island-Noregur
Island-Noregur

Laugardalurinn skartaði sína fegursta bæði fyrir og eftir leik Íslendinga og Norðmanna sem fram fór á Laugardalsvelli í kvöld.  Veðrið bauð áhorfendur velkomna fyrir leik og sólin lét sitt ekki eftir liggja.  Að leik loknum gengu áhorfendur frá velli með sólskinsbros eftir verulegan sætan sigur á Norðmönnum.

Það voru gestirnir sem virkuðu ákveðnari í byrjun og ógnuðu marki Íslendinga nokkrum sinnum eftir innköst og hornspyrnur.  En fyrst mark leiksins var íslenskt, gríðarlega langt innkast frá Aroni Einari Gunnarssyni og Kári Árnason náði að sópa boltanum inn á fjærstönginni.  Markið hleypti krafti í strákana og skömmu síðar átti Gylfi Sigurðsson aukaspyrnu sem sigldi í stöngina og útaf.

Íslensk forysta í leikhléi og barátta og skipulag íslenska liðsins til fyrirmyndar og það sama var upp á teningnum í síðari hálfleiknum.  Ekki var mikið af opnum færum framan af hálfleiknum en Hannes Þór Halldórsson, markvörður, greip þó nokkrum sinnum glæsilega inn í leikinn.l

Síðustu mínúturnar voru þó ansi fjörugar.  Á 81. mínútu átti Gylfi Sigurðsson góða sendingu á Alfreð Finnbogason, sem kom inná stuttu áður sem varamaður.  Hann var einn á auðum sjó og skoraði af miklu öryggi.  Stuttu síðar gerðu Íslendingar tilkall til vítaspyrnu þegar Alfreð féll í teignum en ekkert var dæm.  Hannes bjargaði svo frábærlega með úthlaupi stuttu síðar og í uppbótartíma áttu Norðmenn skot í þverslá íslenska marksins. 

Íslensku leikmennirnir fögnuðu svo innilega þegar franski dómarinn flautaði til leiksloka, sanngjarn sigur í höfn, 2 - 0, frábær byrjun á undankeppni HM 2014.  Stuðningur áhorfenda í kvöld, sem voru 8.352, var frábær frá upphafi og gaf liðinu byr undir undir báða vængi.  Ekki síst var stuðningssveitin Tólfan í miklu stuði og smitaði út frá sér gleðina.

Liðið heldur til Kýpur í fyrramálið en leikið verður við heimamenn á þriðjudaginn.  Kýpverjar töpuðu gegn Albönum á útivelli í kvöld, 1 - 3.  Í þriðja leik riðilsins lögðu Svisslendingar Slóvena á útivelli, 0 - 2.

Island-Noregur

Island-Noregur-(2)

Island-Noregur-(3)