• fös. 07. sep. 2012
  • Landslið

Frábær byrjun hjá stelpunum í Slóveníu

U17 kvenna í Slóveníu
U17-kvenna-i-Sloveniu

Oddný Karólína Hafsteinsdóttir tryggði sigur með þrennu hjá U17 kvenna unglingalandslið kvenna sigraði Slóveníu 3:0 Í Evrópukeppni U17 ára liða í fyrsta leik í riðlinum sem haldinn er í Slóveníu. Íslenska liðið mætti gríðarlega vel undirbúið til leiks og skoraði Esther Rós Arnarsdóttir strax í byrjun en markið var dæmt af sökum rangstöðu. Áfram hélt íslenska liðið og Andrea Rán Hauksdóttir kom sér í úrvalsfæri þegar hún fékk sendingu fyrir markið en skot hennar rataði beint á slóvenska markvörðinn. Nokkuð stress var augljóslega í báðum liðum framan af enda fyrsti leikurinn í riðlakeppninni. Hrollurinn fór þó fljótt af þeim íslensku og Oddný Karólína Hafsteinsdóttir skoraði eftir góða fyrirgjöf Estherar á 25. mínútu.

Eftir markið slaknaði full mikið á íslenska liðinu og þær slóvnesku komust óþarflega mikið inní leikinn. Þá kom að tvennu Berglindar Hrundar Jónasdóttur markvarðar. Fyrst varði hún fasta aukaspyrnu sem stefndi rétt undir slánna með því að slá boltann yfir og stuttu síðar varði hún opið skot úr miðjum teignum á glæsilegan hátt með feykifljótum viðbrögðum. Með þessum tveimur markvörslum fleytti Berglind liðinu inní hálfleikinn.

Í síðari hálfleik var sigurinn aldrei í hættu. Elma Lára Auðunsdóttir átti fína fyrirgjöf fyrir markið sem Oddný afgreiddi í markið af miklu harðfylgi alveg neðan af endalínu. Virkilega vel gert hjá Oddnýju. Áfram hélt íslenska liðið að sækja. Esther átti skot að marki sem markvörðurinn varði með því að koma þónokkuð langt út á móti boltanum. Hann hafnaði hjá Oddnýju sem var fljót að hugsa og skaut í fyrsta enda markvörðurinn í skógarferð. Virkilega snyrtilegt mark með föstu skoti langt utan af velli.

Íslenska liðið lék vel í leiknum. Vörnin var samstíga og gaf fá færi á sér. Fram á við var liðið alltaf hættulegt þar sem fljótir kantmenn og hættulegir framherjar fóru mikinn.
Tvær léku sinn fyrsta leik í bláa búningnum, þær Katla Rún Arnórsdóttir sem var eins og klettur allan leikinn í miðvarðarstöðunni og Alda Ólafsdóttir sem kom inná á miðjuna með mikinn kraft og vinnusemi (sjá mynd af nýliðum).

Næsti leikur íslenska liðsins í riðlinum er gegn Eistlandi á laugardag og hefst hann klukkan 14:30 á íslenskum tíma.  Stelpurnar frá Eistlandi töpuðu fyrir Tékkum í gær í hinum leik riðilsins, 0 - 3.

U17 kvenna í Slóveníu

Nýliðar U17 kvenna