• mið. 05. sep. 2012
  • Landslið

Karlalandslið Íslands og Noregs mætast í 31. skipti

Alid1947-0001
Alid1947-0001

Karlalandslið Íslands og Noregs mætast á Laugardalsvelli, föstudaginn 7. september kl. 18:45.  Þetta er 31. skiptið sem karlalandslið þjóðanna mætast en fyrsti landsleikur þjóðanna fór fram á Melavelli, 24. júlí 1947, eða fyrir 65 árum síðan.  Norðmenn höfðu þá betur, 2 - 4.

Þetta var annar landsleikur Íslands en árið áður höfðu Danir heimsótt okkur og haft sigur, 0 - 3.  Í millitíðinni var Knattspyrnusamband Íslands stofnað og leikurinn við Norðmenn því fyrsti landsleikurinn eftir stofnun sambandsins.  Heimsókn norska liðsins var tengd Snorrahátíð en þá var stytta af Snorra Sturlusyni afhjúpuð í Reykholti.

Leikurinn þótti vel leikinn en enginn þótti þó betri á vellinum en Albert Guðmundsson.  Einar Björnsson skrifaði m.a. í Íþróttablaðið um leikinn: "Af hálfu Íslendinga lék það ekki á tveim tungum að Albert var snjallastur, og einn allra bezti maður á vellinum, bæði hvað knattmeðferð snerti og skipulagshæfni"  Það tók Albert ekki nema fjórar mínútur að finna netmöskvana en Norðmenn jöfnuðu metin á 26. mínútu.  Albert var aftur á ferðinni á 38. mínútu en gestirnir jöfnuðu rétt fyrir leikhlé.  Norðmenn tryggðu sér svo sigurinn með tveimur mörkum í síðari hálfleik enda, eins og segir í bókinni "Knattspyrna í heila öld" eftir Víði Sigurðsson og Sigurð Á. Friðþjófsson, settu Norðmenn tvo menn til höfuðs Albert á vellinum þegar þeir uppgötvuðu leikni hans.

Ísland lagði Norðmenn fyrst af velli árið 1954 þegar Þórður Þórðason skoraði eina mark leiksins á Melavellinum.  Í heildina hafa Norðmenn jafnan haft betur, af 30 leikjum hafa þeir farið með sigur í 18 skipti, jafnteflin hafa verið 5 en íslenskir sigrar 7 talsins.

Síðasti sigur Íslands á Norðmönnum kom árið 1987 þegar Atli Eðvaldsson gerði eina mark leiksins í útisigri.  Athygli vekur að leikir þessara þjóða eru jafnir og spennandi.  Af 10 síðustu leikjum hefur fjórum lokið með jafntefli en aðrir hafa unnist með eins marks mun.

Síðasti leikur þessara þjóða fór fram á Ullevål vellinum í Osló, 2. september í fyrra.  Norðmenn tryggðu sér þá sigur með marki á 88. mínútu leiksins.

Það stefnir því allt í spennandi leik gegn okkar nágrönnum frá Noregi og getur stuðningur áhorfenda þar skipt höfuðmáli.  Minnt er á að miðasala á leikinn er í fullum gangi og er áhorfendum bent á að kaupa sér miða í tíma.

Alid1947-0001

Byrjunarlið Íslands gegn Noregi á Melavelli, 24. júlí 1947.  Frá vinstri á myndinni: Albert Guðmundsson, Hermann Hermannsson, Sigurður Ólafsson, Karl Guðmundsson, Ríkharður Jónsson, Sveinn Helgason, Haukur Óskarsson, Gunnlaugur Lárusson, Birgir Guðjónsson, Sæmundur Gíslason og Ellert Sölvason

Heimild: "Knattspyrna í heila öld" - Eftir Víði Sigurðsson og Sigurð Á Friðþjófsson.