Gæðavottun á leyfiskerfi KSÍ staðfest
Fyrr í mánuðinum fór fram árlegt og víðtækt gæðamat á leyfiskerfi KSÍ. Úttektin er framkvæmd af SGS, sem er alþjóðlegt vottunarfyrirtæki, fyrir hönd UEFA. Alls þarf KSÍ að uppfylla 40 forsendur í gæðastaðli leyfiskerfisins, sem UEFA gefur út. Engar athugasemdir voru gerðar og var gæðavottunin því staðfest.
Athugasemdirnar frá vottunarfyrirtækinu SGS geta verið tvenns konar - Major eða minor, þ.e. meiriháttar eða minniháttar. Meiriháttar athugasemd þýðir að viðkomandi knattspyrnusamband á það á hættu að missa leyfið til að stjórna leyfiskerfinu og gefa út þátttökuleyfi, og þá myndi UEFA taka yfir leyfisstjórn í viðkomandi landi. Minniháttar athugasemd þarf að laga innan ákveðinna tímamarka. Ef það er ekki gert verður hún að meiriháttar athugasemd. KSÍ hefur aldrei fengið meiriháttar athugasemd.
Í úttekt SGS í ágúst 2012 kom engin athugasemd fram, hvorki meiriháttar eða minniháttar. Fram komu tvær ábendingar/tillögur, án þess þó að um athugasemd væri að ræða.
Fulltrúi SGS lýsti að öðru leyti yfir mikilli ánægju með uppsetningu leyfiskerfis KSÍ, skipulag þess og vinnuferla.
SGS staðfesti því gæðavottun á leyfiskerfi KSÍ.