• mið. 15. ágú. 2012
  • Landslið

Góður tveggja marka sigur á Færeyingum

Ísland - Færeyjar 2012 (Gunnlaugur Rögnvaldsson)
isl-far-2012-GR2

A landslið karla vann í kvöld góðan 2-0 sigur á Færeyingum í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum.  Þetta far fyrsti heimaleikur liðsins undir stjórn Lars Lagerbäck og jafnframt fyrsti sigurleikurinn síðan hann tók við þjálfun liðsins.  Kolbeinn Sigþórsson gerði bæði mörk íslenska liðsins og hefur hann nú gert 8 mörk í 11 landsleikjum.

Íslenska liðið var sterkari aðilinn í leiknum og sigurinn var verðskuldaður.  Gestirnir áttu þó sín færi og fór m.a. eitt skot í stöng íslenska marksins, en hið sama gerði Jóhann Berg Guðmundsson upp við mark færeyska liðsins, hamraði boltann í nærstöngina úr þröngu færi.  Fyrsta markið gerði Kolbeinn eftir um hálftíma leik þegar hann náði að snúa sér í markteignum með varnarmann í bakinu og stýra knettinum í netið.  Síðara markið gerði hann undir lok leiksins eftir góða sendingu frá Grétari Rafni Steinssyni.

Góður tveggja marka sigur í höfn.  Áhorfendur fjölmenntu á leikinn og voru ríflega sjö þúsund mættir í Laugardalinn.  Stuðningurinn var frábær og stemmningin góð allan tímann.

Næstu verkefni eru tveir leikir í undankeppni HM 2014.  Fyrst eru það Norðmenn á Laugardalsvellinum 7. september og síðan Kýpur á útivelli fjórum dögum síðar.