• þri. 17. júl. 2012
  • Landslið

U19 karla - Frábær byrjun á Svíþjóðarmótinu

U19 landslið karla
ksi-u19karla

Strákarnir í U19 karla hófu í dag leik á Svíþjóðarmótinu þegar þeir mættu Rúmenum.  Íslenska liðið vann öruggan sigur, 4 - 1 eftir að staðan hafði verið 2 - 1 í leikhléi.

Íslenska liðið spilaði vel í dag og höfðu yfirhöndina í leiknum.  Fyrri hálfleikurinn var fjörugur og nokkuð jafn en íslenska liðið fékk fleiri opin marktækifæri.  Elías Már Ómarsson kom Íslandi yfir á 11. mínútu en Rúmenar jöfnuðu á 20. mínútu leiksins.  Oliver Sigurjónsson bætti við öðru marki Íslands, átta mínútum síðar og þannig stóðu leikar eftir fyrri hálfleikinn.

Íslenska liðið var svo sterkari aðilinn í síðari hálfleiknum og Kristján Flóki Finnbogason skoraði þriðja mark Íslands á 68. mínútu og Aron Bjarnason innsiglaði sigurinn með marki á 80. mínútu leiksins.  Öruggur og sannfærandi sigur í höfn hjá íslenska liðinu sem leikur aftur á fimmtudaginn þegar heimamenn í Svíþjóð verða mótherjarnir.