100 milljónir evra til evrópskra félagsliða
Um það bil 580 knattspyrnufélög í öllum aðildarlöndum UEFA munu fá skerf af þeim fjármunum sem UEFA hefur aflað með úrslitakeppni EM sem lauk nýlega og fram fór í Póllandi og Úkraínu. Þetta er fjölgun um 400 félög frá árinu 2008, en þá var þessi fjöldi „einungis“ 180.
Í mars síðastliðnum undirrituðu UEFA og ECA (European Club Association) sem eru samtök knattspyrnufélaga í Evrópu, samkomulag sem felur í sér að heildarupphæðin sem dreifist á félögin er 100 milljón evrur.
Samkomulagið felur í sér að 40 milljónir fara til þeirra félaga sem áttu leikmenn í þeim landsliðum sem léku í undankeppninni fyrir úrslitakeppnina og hlýtur hvert félag þá upphæð í samræmi við fjölda leikmanna frá viðkomandi félagi. Þetta þýðir að þau knattspyrnufélög sem áttu leikmenn í landsliðshópum Íslands í leikjum í undankeppninni fá greiðslur.
Hinar 60 milljónirnar fara þá til félagsliða sem áttu leikmenn í þeim 16 landsliðshópum sem voru í úrslitakeppninni í Póllandi og Úkraínu.
UEFA mun kynna síðar hver nákvæm niðurstaða verður og er þá tekið tillit til ýmissa þátta, s.s. fjölda leikmanna, fjölda daga í úrslitakeppninni, styrkleikaröðun félagsliða í Evrópu, o.fl.