• fim. 28. jún. 2012
  • Fræðsla

Átak UEFA í markaðsmálum kvennaknattspynu

Fulltrúar Triple Double og UEFA
IMG-20120626-00491

Dagana 24. til 26. júní voru staddir hér á landi fulltrúar UEFA og Triple Double, sem er hollenskt ráðgjafafyrirtæki með sérhæfingu í kostunarsamningum og markaðsmálum í íþróttum, og er með verkefni víðs vegar um heiminn.  Heimsóknin var í tengslum við UEFA Women´s Marketing Programme, sem er nýtt verkefni á vegum UEFA og miðar að því að styðja við knattspyrnusambönd í uppbyggingu og styrkingu markaðs- og kynningarstarfs í deildarkeppni í aðildarlöndum UEFA. 

Ísland er eitt af átta löndum sem þessi starfshópur heimsækir í sama tilgangi (meðal annarra landa eru Skotland, Danmörk og Finnland).  Markmiðið er tvíþætt – annars vegar að styðja knattspyrnusambönd viðkomandi landa við markaðs- og kynningarstarf á kvennaknattspyrnu (með áherslu á deildarkeppni) og hins vegar að safna upplýsingum frá þessum löndum með það fyrir augum að setja saman handbók sem hægt er að nota sem bestun (benchmarking) fyrir knattspyrnusambönd sem hafa ekki náð jafn langt í uppbyggingu á kvennaknattspyrnu.

Pepsi-deildinÍ heimsókn UEFA hingað til lands var farið um víðan völl, mikil söfnun upplýsinga fór fram og greining á stöðu og umhverfi kvennaknattspyrnu í landinu, sérstaklega m.t.t. Pepsi-deildar kvenna. 

Fulltrúar UEFA og Triple Double fóru á einn leik í Pepsi-deild kvenna (Stjarnan-Afturelding sunnudaginn 24. júní)  til að kynna sér umgjörð leikja, funduðu með hagsmunaaðilum utan knattspyrnuhreyfingarinnar (fulltrúa fjölmiðla og kostunaraðila deildarinnar) og ræddu ítarlega við fulltrúa KSÍ. 

Þá var einnig fundað með fulltrúum félaga í Pepsi-deild kvenna.  Á þeim fundi, sem var afar gagnvirkur, skiptust aðilar á skoðunum og hugmyndum og var ljóst að stuðningur fulltrúa félaganna við allar aðgerðir tengdar þessu verkefni til að auka aðsókn er og verður mikill.

Fulltrúar félaga á fundi 25. júní

Félag Nafn Staða / Hlutverk
Breiðablik Atli Sigurðarson Framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar
FH Árni Guðmundsson Formaður meistaraflokksráðs kvenna
FH Gunnar Gunnarsson Framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar
Fylkir Ásgeir Ásgeirsson Formaður knattspyrnudeildar
Fylkir Jón Óli Sigurðsson Gjaldkeri knattspyrnudeildar
Fylkir Ólafur Björgvin Pétursson Formaður meistaraflokksráðs kvenna
ÍBV María Guðjónsdóttir Fulltrúi kvennaráðs
Stjarnan Einar Páll Tamimi Formaður meistaraflokksráðs kvenna
Valur Benóný Valur Jakobsson Formaður meistaraflokksráðs kvenna
Valur Haraldur Daði Ragnarsson Framkvæmdastjóri
Þór/KA Nói Björnsson Formaður meistaraflokksráðs kvenna

Þrjú félög í Pepsi-deild kvenna – Afturelding, KR og Selfoss – áttu ekki fulltrúa á fundinum.

Í lok heimsóknarinnar kynntu fulltrúar Triple Double samantekt og niðurstöður fyrir fulltrúum KSÍ og kynntu jafnframt næstu skref í verkefninu.  Markmið verða skilgreind síðar í ferlinu, í samstarfi við félögin og aðra hagsmunaaðila, þegar greiningarvinnu er lokið. 

Meðal atriða sem má nefna hér eru að á kvennalandsleik í september verður unnið könnun sem miðar að því að greina hvaða áhorfendur mæta á leiki í Pepsi-deild kvenna og jafnframt að greina upplýsingar um hvers vegna aðrir mæta ekki á leiki deildarinnar.

Þá er ljóst að hvert félag í Pepsi-deild mun skipa markaðsfulltrúa sem mun verða ábyrgur fyrir markaðs- og kynningarstarfi (auglýsingum og fleiru) hjá hverju félagi.  Eina markmið markaðsfulltrúans verður að fá fleiri áhorfendur á leiki síns félags.

Undirbúnings- og greiningarvinnu mun ljúka í október og þá mun áætlun jafnframt liggja fyrir.  Innleiðing verkefnisins hefst síðan á fyrstu mánuðum ársins 2013.