Öruggur íslenskur sigur í Lovech
Íslenska kvennalandsliðið vann öruggan sigur á Búlgörum í dag í undankeppni EM en leikið var í Lovech. Lokatölur urðu 0 – 10 eftir að íslenska liðið hafði leitt með þremur mörkum í leikhléi.
Eins og tölurnar gefa til kynna var sigurinn aldrei í hættu, alveg frá því að fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir kom Íslandi yfir á 10 mínútu leiksins. Sara Björk Gunnarsdóttir bætti við öðru marki á 29. mínútu og Margrét Lára Viðarsdóttir kom Íslandi í þriggja marka forystu á 36. mínútu. Þannig stóðu leikar þegar spænski dómarinn flautaði til leikhlés.
Í síðari hálfleiknum opnuðust svo allar flóðgáttir og stelpurnar bættu við 7 mörkum. Sara Björk, Margrét Lára og fyrirliðinn Katrín bættu við marki og Dóra María Lárusdóttir skoraði einnig. Þá settu varamennirnir Dagný Brynjarsdóttir, Katrín Ómarsdóttir og Kristín Ýr Bjarnadóttir svo sannarlega mark sitt á leikinn því þær skoruðu allar í síðari hálfleiknum.
Svo sannarlega glæsilegur sigur hjá íslenska liðinu en það hefur skort nokkuð að vinna leiki sannfærandi á útivelli. Það gerðist svo sannarlega í dag og er liðið því komið á topp riðilsins að nýju. Framundan eru því tveir gríðarlega spennandi leikir, fyrst gegn Norður Írum á Laugardalsvelli 15. september og svo gegn Noregi í Sarpsborg, fjórum dögum síðar.