• mið. 20. jún. 2012
  • Landslið

Stelpurnar mæta Búlgörum - Viðtal við Sigurð Ragnar

Bulgaria
Bulgaria

Íslenska kvennalandsliðið er í Búlgaríu þar sem liðið undirbýr sig nú undir mikilvægan leik gegn heimastúlkum í undankeppni EM.  Fer leikurinn fram í Lovech, fimmtudaginn 21. júní og hefst kl. 15:00 að íslenskum tíma.

Heimasíðan heyrði í Sigurði Ragnari Eyjólfssyni, landsliðsþjálfara, á milli æfinga og spurði fyrst hvernig færi um hópinn og hvernig staðan væri á leikmannahópnum? " Það fer mjög vel um okkur á hótelinu og æfingavöllurinn er hér stutt frá.  Það er mikill hiti, glampandi sól allan daginn og gæti orðið allt að 30 stiga hiti þegar kemur að leiknum.  Æfingarnar hafa miðast við að hjálpa leikmönnum að jafna sig í líkamanum eftir landsleikinn okkar síðasta laugardag á móti Ungverjum.  Þetta var langt og erfitt ferðalag að komast hingað svo við erum að nýta tímann til að hlaða batteríin fyrir næsta leik.  Allir leikmenn eru heilir og klárir í slaginn eins og staðan er núna".

Íslenska liðið vann öruggan sigur á Búlgörum á Laugardalsvellinum á síðasta ári, 6 - 0 en má búast við erfiðari leik á útivelli?

"Já, það má búast við mun erfiðari leik hjá okkur bæði útaf því að okkur sjálfum hefur gengið verr á útivelli heldur en heimavelli og ekki síður útaf því að mikill munur hefur verið á úrslitum Búlgaríu á heima og útivelli.  Þannig töpuðu þær núna síðast gegn Noregi 11-0 úti í Noregi en töpuðu bara 3-0 gegn Noregi hér í Búlgaríu þar sem að það tók Noreg 70 mínútur að skora fyrsta mark leiksins og Noregur bætti svo við 2 mörkum í uppbótartíma.  Búlgaría tapaði bara 1-0 hérna á móti Belgíu og 1-0 á móti Norður Írlandi.  Danmörk gerði jafntefli við Búlgaríu hérna 0-0 í síðustu undankeppni.  Þær eru því sýnd veiði en ekki gefin.  Leikurinn mun snúast um að við séum klár á okkar leik.  Við erum með betra lið en fáum ekkert gefins.  Ef okkur tekst að vinna þennan leik þá erum við búin að búa til mjög spennandi haustleiki fyrir okkur og það er stefnan okkar að halda áfram efsta sætinu í riðlinum okkar."

Eru mótherjarnir með breytt lið frá því þær léku hér á Laugardalsvelli?

 "Já, þær eru með mikið breyttan leikmannahóp, það voru 10 nýir leikmenn í 18 manna leikmannahóp þeirra í leiknum þeirra gegn Noregi á laugardaginn frá því að við mættum þeim á Laugardalsvelli.  Þar af voru 3 breytingar á byrjunarliðinu þeirra.  Svo er spurning hvort þjálfarinn þeirra breyti liðinu meira því þeim gekk illa í síðasta  leik.  Við erum því fyrst og fremst að einbeita okkur að okkar liði og okkar leik í undirbúningi þessa leiks, að þróa leik okkar áfram og bæta okkur.  Við náðum oft upp frábæru spili á móti Ungverjalandi, bjuggum til margar góðar sóknir og færi og vonandi náum við að halda því áfram gegn Búlgaríu og koma heim til Íslands með öll stigin þrjú með okkur.

Minnt er á að hægt er að fylgjast með textalýsingu af leiknum á heimasíðu UEFA