A kvenna - Öruggur sigur á Ungverjum
Íslenska kvennalandsliðið vann góðan sigur á Ungverjum í undankeppni EM en leikið var á Laugardalsvelli í dag. Lokatölur urðu 3 - 0 fyrir Ísland og leiddu stelpurnar með tveimur mörkum í leikhléi.
Íslenska liðið hóf leikinn af krafti og Margrét Lára Viðarsdóttir kom íslenska liðinu yfir eftir sjö mínútna leik eftir sendingu frá Fanndísi Friðriksdóttur. Í kjölfarið fékk svo Fanndís tvö góð marktækifæri sem ekki nýttust. Ungverska liðið sótti svo í sig veðrið og á tveggja mínútna kafla þurftu Þóra tvisvar að taka á honum stóra sínum í markinu þegar gestirnir gerðust aðgangsharðir. Það var svo á 42. mínútu sem Hólmfríður Magnúsdóttir setti boltann í netið eftir sendingu frá Fanndísi og tveggja marka forysta í leikhléi.
Íslenska liðið var sterkari aðilinn í síðari hálfleiknum og komu boltanum í netið eftir aðeins tveggja mínútna leik en skallamark Dóru Maríu Lárusdóttur var dæmt af vegna rangstöðu. Ekki voru mörg færi á boðstólum í síðari hálfleiknum en íslenska liðið hafði leikinn í höndum sér. Eitt mark leit þó dagsins ljós í viðbót og það kom á 86. mínútu. Þar var að verki Sandra María Jessen eftir frábæra sendingu frá Katrínu Ómarsdóttur. Ekki aðeins var Sandra María að skora í sínum fyrsta landsleik heldur gerði hún það einnig í sinni fyrstu snertingu því hún kom inná aðeins tveimur mínútum áður.
Stuttu síðar flautaði rúmenski dómarinn til leiksloka og 1.395 áhorfendur fögnuðu öruggum sigri í blíðunni á Laugardalsvelli. Stigin gríðarlega mikilvæg og er liðið nú á toppi riðilsins, einu stigi á undan Noregi. Norðmenn unnu stóran sigur á Búlgörum í dag, 11 - 0. Búlgarir eru einmitt næstu mótherjar íslenska liðsins en liðið heldur utan á mánudaginn. Leikurinn fer fram á fimmtudaginn, 21. júní.