Ísland - Ungverjaland á laugardaginn - Allir á völlinn!
Stelpurnar taka á móti Ungverjum í undankeppni EM, laugardaginn 16. júní, á Laugardalsvelli. Leikurinn hefst kl. 16:00 og er gríðarlega mikilvægur fyrir íslenska liðið.
Baráttan er gríðarlega hörð í riðli Íslands í undankeppninni en íslenska liðið er sem stendur í öðru sæti á eftir Belgum. Íslenska liðið hefur hinsvegar tapað fæstum stigum allra í riðlinum. Ungverjar eru í næstneðsta sæti riðilsins með 7 stig en íslenska liðið vann nauman sigur í fyrri leik þjóðanna í Ungverjalandi, 0 -1.
Það er því ljóst að stelpurnar munu spila til sigurs því möguleikinn á sæti í úrslitakeppni EM 2013 er mikill. Stuðningur áhorfenda getur því skipt sköpum á Laugardalsvelli á laugardaginn því mikið er í húfi.
Miðasala á leikinn er hafin á http://www.midi.is/. Miðaverð á leikinn er 1.000 krónur fyrir fullorðna en frítt er inn fyrir börn, 16 ára og yngri.
Fjölmennum á völlinn – Áfram Ísland!