Facebook, Twitter og aðrir samfélagsvefir
Það færist stöðugt í aukana að leikmenn, þjálfarar og aðrir fulltrúar knattspyrnunnar tjái sig um knattspyrnutengd málefni á samskiptavefjum eins og Twitter og Facebook, hér á landi sem erlendis. Samfélagsvefir eru auðvitað ekkert annað en samskiptatæki og jákvæð notkun
þessara tækja getur orðið til þess að auka umfjöllun um knattspyrnu og tengd mál, og færir jafnframt stuðningsmenn nær leikmönnum og þjálfurum, sem eru fyrirmyndir ungu kynslóðarinnar.
Rétt er þó að hafa í huga að það er ýmislegt sem ber að varast við notkun á þessum samskiptatækjum. Samfélagsvefir eru miðlar, ekki ólíkir öðrum fjölmiðlum, á þann hátt að allt sem birtist á vefnum er auðvitað birt opinberlega, þó hægt sé að stilla síðurnar á ýmsan hátt. Aðgát skal höfð í nærveru sálar er orðatiltæki sem gæti átt við hér. Það er ekki sama hvað sett er á Facebook eða Twitter.
Hér á landi „Tísta“ margir, eins og það er kallað þegar færslur eru settar á Twitter-síður, og enn fleiri stunda Facebook af kappi. Samskiptavefirnir eru auðvitað fleiri. Við búum í litlu samfélagi, og þó knattspyrnuhreyfingin á Íslandi sé eins fjölmenn og hún er þarf ekki mikið að gerast til að „tístin“ verði hávær.
Mönnum er oft heitt í hamsi eftir knattspyrnuleiki, jafnvel í aðdraganda þeirra. Stundum segja menn hluti sem þeir sjá eftir, og þetta getur líka gerst ef menn eru aðeins of fljótir á sér að setja færslu á samskiptavef. Þetta verða þjálfarar, leikmenn og aðrir tengdir knattspyrnunni á Íslandi að hafa í huga.
Aðildarfélög KSÍ eru hvött til að brýna það fyrir sínum félagsmönnum, hvort sem um er að ræða leikmenn, þjálfara eða aðra, að fara varlega í færslur sínar á samskiptavefjunum og sýna háttvísi í samskiptum sínum utan vallar sem innan. KSÍ gæti þurft að bregðast við færslum sem koma inn á borð sambandsins og geta flokkast þannig að þær geti skaðað ímynd knattspyrnunnar eða þeirra sem taka þátt í leiknum, eins og segir í 18. grein reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál.
18. gr. Ósæmileg framkoma
18.1. Framkvæmdastjóra KSÍ er heimilt að vísa til aga- og úrskurðarnefndar atvikum sem skaðað geta ímynd knattspyrnunnar eða þeirra sem þátt taka í leiknum. Slík atvik hafa þá ekki komið fram í atvikaskýrslum dómara og/eða eftirlitsmanns á leiknum en geta verið hvers kyns ósæmileg framkoma á leikstað eða á annan hátt opinberlega.
18.2. Framkvæmdastjóri KSÍ skal skila greinargerð til nefndarinnar ásamt gögnum máli sínu til stuðnings og skal fara með slík mál eins og um kærumál sé að ræða, eins og við getur átt.