• þri. 05. jún. 2012
  • Landslið

U21 karla - Svekkjandi tap á KR vellinum

U21 landslið karla
ksi-u21karla

Strákarnir í U21 biðu lægri hlut gegn Aserum í undankeppni EM í kvöld en leikið var á KR vellinum.  Lokatölur urðu 1 - 2 gestunum í vil eftir að Íslendingar höfðu leitt í leikhléi.  Sigurmark Asera kom í uppbótartíma.

Íslenska liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og fengu nokkur góð marktækifæri á fyrstu mínútum leiksins.  Það var því fyllilega eftir gangi leiksins þegar Björn Bergmann Sigurðarson skoraði fyrsta mark leiksins er hann skallaði inn aukaspyrnu Kristins Steindórssonar.  Sex mínútum eftir mark Björns fengu gestirnir aukaspyrnu en Árni Snær Ólafsson gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnuna og Íslendingar því með forystu þegar færeyski dómari leiksins, Petur Reinert, flautaði til loka fyrri hálfleiks.

Gestirnir voru meira með boltann í síðari hálfleiknum en sköpuðu sér fá færi, reyndu mikið af langskotum sem annað hvort hittu ekki markrammann eða Árni Snær handsamaði örugglega.  Úr einu slíku kom þó jöfnunarmark Asera á 77. mínútu og þá tóku íslensku strákarnir við sér og sóttu töluvert að marki gestanna.  Sigurmarkið var þó Asera og kom það í uppbótartíma og því lítill sem enginn tími til að jafna leikinn eftir það.

Virkilega svekkjandi tap fyrir strákana sem áttu marga góða möguleika, sérstaklega í fyrri hálfleiknum.  Það er þó stutt í næsta verkefni því leikið verður gegn Noregi, ytra, næstkomandi þriðjudag, 13. júní í Drammen.  Þar verður liðið væntanlega án Björn Bergmanns Sigurðarsonar og Kristins Steindórssonar sem fengu báðir gul spjöld í kvöld og taka því út leikbann gegn Norðmönnum.

Riðillinn