Frá blaðamannafundi á Gamla Ullevi
Lars Lagerbäck, þjálfari A landsliðs karla, sat fyrir svörum fulltrúa fjölmiðla á blaðamannafundi á Gamla Ullevi leikvanginum í Gautaborg.
„Það er svolítið sérstakt fyrir mig að vera við stjórnvölinn á landsliði sem er að leika gegn Svíþjóð, en þetta er mjög spennandi verkefni og verður góð prófraun fyrir okkur. Það er gott að vinna með íslensku leikmönnunum, þeir eru fljótir að bregðast við mínum hugmyndum. Við ætlum að gera eins vel og við getum, það skiptir engu þó þetta sé vináttulandsleikur, við viljum vinna" sagði Lars við sænska fjölmiðlamenn, sem fjölmenntu á fundinn.
Aðspurður um sænska liðið og lykilleikmenn þess sagðist Lars þekkja liðið nokkuð vel og að Zlatan Ibrahimovic væri klárlega lykilmaður. „Zlatan verður væntanlega í svolítið frjálsu hlutverki í sænska liðinu, við reynum að koma böndum á hann".
Hjörtur Logi Valgarðsson og Helgi Valur Daníelsson voru einnig viðstaddir og fengu margar spurningar. Þeir voru spurðir um sænska liðið. „Svíar eru öðruvísi mótherjar en Frakkar, spila allt öðruvísi fótbolta" sagði Hjörtur Logi. „Á meðan Frakkar eru með mjög sterka einstaklinga, þá eru Svíar meira að leggja á herslu á liðsheildina. Við ætlum að vera skipulagðir og agaðir í vörn, og sækjum þegar færi gefst."
Helgi bætti við: „Við þurfum að stoppa Zlatan, það er engin spurning, allir þekkja hann sem sterkasta leikmann Svía. Við reynum samt að einbeita okkur að okkar liði og okkar styrkleikum. Við höfum farið vel yfir sænska liðið og höfum fína mynd af því hvernig á að verjast liði sem leikur eins og Svíar."
Helgi Valur var spurður hvort margt hefði breyst með tilkomu Lars í þjálfarastöðuna hjá Íslandi? „Nýjar hugmyndir með reynslumiklum þjálfara sem nýtur mikillar virðingar í knattspyrnuheiminum. Leikmenn hafa brugðist vel við. Allir vilja ólmir fá að taka þátt í þessu. Við erum með marga unga leikmenn, bland af líkamlega sterkum leikmönnum í hópnum og teknískum". Hjörtur Logi tók undir. „Við erum með ungt lið sem á framtíðina fyrir sér og þessir leikir gegn svona sterkum liðum eru góðir fyrir okkur, við lærum af hverjum leik. Við reynum alltaf að gera betur í næsta leik og við ætlum að gera betur en gegn Frökkum."
Vináttulandsleikur Svíþjóðar og Íslands fer fram á miðvikudag og hefst kl. 18:15 að íslenskum tíma (beint á Stöð 2 Sport).