• sun. 27. maí 2012
  • Landslið

Naumt tap í Valenciennes

A landslið karla
ksi-Akarla

Karlalandsliðið tapaði naumlega gegn Frökkum í kvöld í vináttulandsleik sem fram fór í Valenciennes.  Lokatölur urðu 3 - 2 fyrir Frakka eftir að Íslendingar höfðu leitt í leikhléi, 0 - 2.  Frakkar skoruðu tvö mörk á síðustu fimm mínútum leiksins og tryggðu sér þar með sigur.

Eins og búast mátti við voru Frakkar sem voru meira með boltann en íslenska liðið var skipulagt og beitti skyndisóknum þegar færi gáfust.  Franskir áhorfendur trúðu vart sínum eigin augum þegar flautað var til leikhlés því þá leiddu Íslendingar með tveimur mörkum.  Fyrst skoraði Birkir Bjarnason og síðan Kolbeinn Sigþórsson eftir góða sólkn.

Heimamenn minkkuðu muninn eftir um sjö mínútna leik og sóttu stíft að marki Íslendinga sem eftir lifði leiks.  Birkir Bjarnason fékk dauðafæri til að ná aftur tveggja marka forystu en lokaspretturinn var Frakka, mörk á 85. og 87. mínútu tryggðu þeim sigur.

Þrátt fyrir tap var Lars Lagerbäck ánægur með sitt lið:

"Þetta var ótrúlegur leikur, ég er mjög stoltur af mínum leikmönnum.  Auðvitað voru þeir meira með boltann og sóttu meira, en við vörðumst vel og og komumst fyrir langflest af skotum þeirra.  Ég er samt ósáttur við að tapa leiknum, því við hefðum vel getað unnið, sem hefðu verið alveg frábær úrslit.  Frakkarnir tóku alveg völdin þegar þeir skiptu inn á nokkrum afar öflugum leikmönnum í seinni hálfleik og náðu því miður að skora tvö mörk í lokin.  Það var margt jákvætt í þessu hjá okkur og ég bíð spenntur eftir leiknum við Svía.  Við reyndum að vinna leikinn í kvöld og við munum einnig reyna að vinna í Gautaborg.  Út á það gengur þetta.  Við viljum alltaf vinna."

Það er stutt í næsta verkefni hjá liðinu, leikið verður gegn Svíum í Gautaborg á miðvikudaginn.