Frá blaðamannafundi í Valenciennes
A landslið karla er nú statt í Frakklandi þar sem það undirbýr sig fyrir vináttulandsleik við Frakka í Valenciennes. Á blaðamannafundi á Stade de Hainaut leikvanginum, þar sem leikurinn fer fram á sunnudaginn, sátu þjálfari íslenska liðsins og tveir leikmenn fyrir svörum franskra blaðamanna.
Fyrst var Lars spurður hverjar væru væntingar þjálfarans til leiksins við Frakka?
„Við viljum spila við sterk lið, það hjálpar okkur mikið í þeirri vinnu sem við erum í. Það eru margir góðir leikmenn í íslenska liðinu og það verður áhugavert að sjá hvernig þeir bregðast við því að spila við jafn sterkt lið og Frakkland, sem er eitt af bestu landsliðum í heimi.
Ég reyni auðvitað alltaf að stilla upp eins sterku liði og mögulegt er þó ég reyni alltaf að gefa eins mörgum leikmönnum tækifæri og hægt er. Vináttuleikir eru gott tækifæri fyrir leikmenn til að sýna sig og sanna, en ég vil líka ná góðum úrslitum í vináttulandsleikjum, það skiptir máli fyrir framhaldið og reynir á hugarfar leikmanna.
Við munum vitanlega reyna að verjast vel, sem liðsheild, og sækjum þegar við getum, því við viljum auðvitað skora og ná góðum úrslitum. Það er allt mögulegt í fótbolta".
Aðspurður um möguleika Íslands á að komast í úrslitakeppni stórmóts sagði Lars að ísland ætti möguleika í riðlinum fyrir HM 2014 í Brasilíu. „Riðillinn er jafnari en margir af hinum riðlunum, það eru möguleikar gegn öllum liðunum. Það verður þó að hafa í huga að við erum að byggja upp lið og kjarninn í því eru leikmenn sem eru enn ungir, þó margir þeirra hafi þegar öðlast dýrmæta reynslu með félagsliðum í sterkum deildum og í úrslitakeppni EM U21 landsliða í Danmörku í fyrra, til dæmis þeir leikmenn sem sitja hér með mér." sagði þjálfarinn reynslumikli og benti á leikmennina sem voru með honum á blaðamannafundinum, þá Jóhann Berg Guðmundsson og Kolbein Sigþórsson. „Ungu leikmennirnir í hópnum eru svolítið margir, en þeir búa samt yfir mikill reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Verkefnið er afar spennandi."
„Það er auðvitað frábært að fá tækifæri á að spila við jafn sterkt landslið og það franska" sagði Jóhann Berg aðspurður um sínar væntingar til leiksins, „en aðalmálið er að við stillum saman okkar strengi sem lið." Kolbeinn tók í sama streng. „Við hlökkum mjög til leiksins, því við viljum sýna hvað við getum á mótu svona sterku liði".