• mán. 21. maí 2012
  • Fræðsla

Luku 30 eininga háskólanámi á vegum UEFA

UEFA
uefa_merki

Klara Bjartmarz, skrifstofustjóri KSÍ, og Ómar Smárason, leyfis- og markaðsstjóri KSÍ, luku nýlega 30 eininga háskólanámi í knattspyrnusértækri viðburðastjórnun.  Námið, sem er diplomanám, er á vegum UEFA og er stýrt af IDHEAP menntastofnuninni, sem er hluti af háskólanum í Lausanne.

Um er að ræða tveggja ára fjarnám, þar sem nemendur læra og vinna verkefni í gegnum internet, en þurfa jafnframt að sækja þrjár vinnulotur í Sviss, auk þess að verja lokaverkefni sitt.  Fyrra árið kallast UEFA CFM (Certificate in Football Management) og seinna árið UEFA DFM (Diploma in Football Management).  Bæði Klara og Ómar fengu fyrra árið metið að fullu og var matið byggt á fyrri menntun og starfsreynslu.

Mikill fjöldi umsækjenda er um þetta nám, sem er kostað af UEFA, og komast alls um 80 manns að á hverju ári, þ.e. 40 á CFM og 40 á DFM, og eru umsækjendurnir frá öllum aðildarlöndum UEFA.  Markmið UEFA með þessu námi er að auka við sérfræðiþekkingu lykilstarfsmanna frá aðildarlöndunum, og fjárfesta þannig í auknum gæðum í skipulagi evrópskrar knattspyrnu.

Þess má geta að einnig er hægt að sækja um inngöngu í mastersnám í framhaldi af fyrrgreindu námi, sem ber heitið Executive Master inEuropean Sport Governance (MESGO).

Frétt á vef UEFA