• fös. 11. maí 2012
  • Landslið

U17 karla - Strákarnir nálægt undanúrslitunum

UEFA EM U17 karla
U17_Landscape_Master_Dark_cmyk-01

Strákarnir í U17 voru einu marki frá því að komast í undanúrslitin í úrslitakeppni EM sem fram fer í Slóveníu.  Lokaleikurinn var gegn Georgíu og höfðu Georgíumenn betur, 1 - 0, og tryggðu sér þar með sæti í undanúrslitunum.  Íslenska liðinu hefði dugað 1 - 1 jafntefli til að komast áfram í undanúrslitin.

Það var mikið undir og mikil spenna á meðal leikmanna beggja liða og leikurinn var ekki rismikill þó svo að baráttan hefði vissulega verið til staðar.  Lítið var um marktækifæri, helst að Georgíumenn ógnuðu með langskotum og varði Rúnar Alex Rúnarsson nokkrum sinnum virkilega vel.

Sigurmark leiksins kom þegar um 6 mínútur voru eftir af leiknum og þrátt fyrir góðar tilraunir íslenska liðsins tókst þeim ekki að skora þetta eina mark í lokin sem hefði nægt þeim í undanúrslitin.

Georgíumenn mæta Hollendingum í undanúrslitunum og Þýskaland leikur gegn Póllandi.  Vonbrigði strákanna vissulega mikil en þeir geta sannarlega borið höfuðið hátt eftir þessa úrslitakeppni og ekki síður leikina í undankeppninni.  Svo sannarlega frábær hópur á ferðinni sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.