• fös. 04. maí 2012
  • Landslið

U17 karla - Frábært stig gegn Frökkum

UEFA EM U17 karla
U17_Portrait_Master_Dark_cmyk-01

Strákarnir í U17 náðu sér í dýrmætt stig í kvöld þegar þeir mættu Frökkum í fyrsta leik liðsins í úrslitakeppni EM sem fram fer í Slóveníu.  Lokatölur urðu 2 - 2 þar sem Frakkar leiddu með einu marki í leikhléi og höfðu tveggja marka forystu þegar 15 mínútur voru eftir af leiknum.  Frábær endurkoma hjá strákunum sem sýndi mikinn og sterkan vilja hjá þessum skemmtilega hópi.

Frakkar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og komust yfir strax á 7. mínútu.  Íslenska liðinu gekk illa að byggja upp sóknir og það var ekki fyrr en á síðustu mínútu hálfleiksins sem að strákarnir fengu færi þegar markvörður Frakka varði frá Daða Bergssyni.

Allt annað var upp á teningnum í síðari hálfleik þar sem íslenska liðið byrjaði af krafti og fengu dauðafæri á fyrstu mínútum hálfleiksins en markvörður Frakka varði frábærlega frá Orra Sigurði Ómarssyni eftir hornspyrnu Olivers Sigurjónssonar.  Spyrnur Olivers ollu miklum usla í vörn Frakka í leiknum og áttu eftir að koma meira við sögu.  Strákarnir voru óhræddir við að sækja að Frökkum í síðari hálfleiknum svo það var nokkuð gegn gangi leiksins sem Frakkarnir komust tveimur mörkum yfir á 56. mínútu.  Tíu mínútum síðar minnkaði Gunnlaugur Birgisson muninn með sinni fyrstu snertingu eftir að hafa komið inná sem varamaður.  Markið skoraði hann með góðum skalla eftir hornspyrnu Olivers.  Íslenska liðinu óx ásmegin við markið og áttu í fullu tré við fljóta og flinka Frakka.

Þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma fengu strákarnir aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Frakka.  Oliver sendi glæsilega sendingu fyrir markið og þar var fyrirliðinn, Hjörtur Hermannsson, mættur og stangaði knöttinn í netið.  Strákarnir fögnuðu innilega en þurftu svo að verjast af krafti sem eftir lifði leiks því Frakkar sóttu stíft síðustu mínútur leiksins en þremur mínútum var bætt við í uppbótartíma.  Strákarnir brostu út að eyrum í leikslok enda frábær endurkoma sem skilaði fyrsta stiginu í hús.

Næsti leikur Íslands í riðlinum er gegn öðrum knattspyrnurisa, Þjóðverjum, en hann fer fram mánudaginn 7. maí.  Þjóðverjar lögðu Georgíumenn í hinum leik riðilsins í kvöld og eru því á toppnum með þrjú stig.  Tvö efstu liðin í riðlinum komast í undanúrslit.