Fundað um áhersluatriði dómaranefndar
Í vikunni hafa dómararnir Gunnar Jarl Jónsson, Þorvaldur Árnason og Þóroddur Hjaltalín fundað með tveimur mikilvægum hópum um knattspyrnulögin, breytingar á þeim og áhersluatriði dómaranefndar KSÍ fyrir keppnistímabilið 2012.
Á mánudag voru mættir þjálfarar og fulltrúar leikmanna félaga í efstu tveimur deildum karla. Hópurinn var tvískiptur. Þóroddur ræddi við þjálfara og fulltrúa leikmanna Þórs og KA á Akureyri og á sama tíma funduðu Þorvaldur og Gunnar Jarl með stærri hópi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardalnum.
Þessi fundur var ekki einungis fræðsla og vettvangur til samskipta við fulltrúa félaganna, heldur heldur var verið að bjóða félögunum upp á tækifæri til að uppfylla neðangreinda kröfu í leyfiskerfi KSÍ. Þau félög sem ekki áttu fulltrúa á fundinum þurfa því að leysa málið og uppfylla kröfuna með öðrum hætti.
Grein 22 – Dómgæsla og knattspyrnulögin
22.1 Leyfisumsækjandi verður að sýna fram á að a.m.k. fyrirliði meistaraflokks, aðalþjálfari meistaraflokks og yfirþjálfari unglingastarfs hafi sótt fundi eða kynningu um dómgæslu og knattspyrnulögin á vegum KSÍ á undangengnu ári, þ.e. á árinu á undan leyfistímabilinu.
Fjölmiðlar mættu á miðvikudag
Fulltrúum fjölmiðla var svo boðið til fundar á miðvikudag til að kynna sér sömu atriði, þ.e. knattspyrnulögin, breytingar á þeim og áhersluatriði dómaranefndar KSÍ fyrir keppnistímabilið 2012. Á fundinn mættu fulltrúar 365 miðla, Morgunblaðsins, Fótbolta.net og 433.is.
Umræður urðu afar fjörlegar á þessum fundum og voru menn ánægðir með framtakið.