• mán. 16. apr. 2012
  • Fræðsla

Blái naglinn og KSÍ

Blái naglinn
blai-naglinn-2012

Heimildarmyndin Blái naglinn var sýnd á RÚV þann 1. apríl sl. og hratt af stað árveknis- og vitundarvakningu um krabbamein í blöðruhálskirtli. Árlega greinast 220 karlmenn á Íslandi með blöðruhálskrabbamein. Dánartíðni úr þessari tegund krabbameins er há eða um 50 manns á ári hverju. Heimildarmyndin Blái naglinn fjallar um baráttu karlmanns við blöðruhálskrabbamein, hvernig hann tók því að hafa greinst með þessa tegund krabbameins og hvernig hann vann úr því. Heimildarmyndina gerðu þeir Jóhannes Kr. Kristjánsson og Ingi R. Ingason og vakti hún mikla athygli og umræðu. Til að fylgja meðbyr hennar eftir verður farið í söluátak um allt land frá 19. apríl til 3. maí næstkomandi, þar sem seldur verður Blái naglinn, blámálaður sex tommu nagli í umbúðum með upplýsingum sem tengjast átakinu.

Allur ágóði af sölu Bláa naglans mun renna til kaupa á nýjum línuhraðli hjá Landspítala háskólasjúkrahúsi (LSH). Línuhraðall er tæki sem notað er í geislunarmeðferð krabbameinssjúklinga.  LSH á tvö slík tæki sem þarfnast endurnýjunar. Eldra tækið er orðið sextán ára gamalt og það yngra átta ára. Stöðugt er verið að þróa þá tækni sem hjálpar okkur í baráttunni við krabbamein og er nú þörf á nýrra og nákvæmara tæki. Alls er áætlaður kostnaður við nýja geislunartækið um 400 mkr.

Við viljum leggja allt í sölurnar og styðjum LSH við kaup á nýju tæki með söluherferð á Bláa naglanum um allt land undir slagorðinu Vertu nagli. Sýndu stuðning!

Aðildarfélögum KSÍ stendur til boða að taka þátt í söluátakinu og með þátttöku geta félögin skapað sér góðar tekjur, þar sem fimmtungur af söluandvirði hvers nagla rennur til félagsins í formi sölulauna.  KSÍ vonast eftir góðri þátttöku knattspyrnufélaga á landsvísu til að styðja við þetta mikilvæga málefni, og hvetur jafnframt félögin til að nýta söluátakið sem fjáröflun vegna eigin starfsemi.

Blái naglinn verður seldur á 1.000 krónur og mun þitt félag fá 20% í sölulaun eða 200 krónur fyrir hvern seldan nagla.

Bláa naglanum verður pakkað í 300 stk. pakkningar ásamt litlum bæklingi/umbúðum sem söluaðilar setja naglann í. Naglinn er ekki seldur án umbúða því á þeim koma fram mikilvægar upplýsingar er varða átakið. Heildarverðmæti af sölu hverrar sölupakkningar er 300.000 krónur og eru sölulaun því 60.000 krónur ef allir naglarnir seljast. Eftirstöðvarnar, 240.000 krónur, renna til Bláa naglans og er söluaðili ábyrgur fyrir að leggja þá upphæð inn á reikning átaksins í Íslandsbanka, en Íslandsbanki er fjárhaldsaðili átaksins. Reikningsnúmerið er 0537-26-405656, kennitala 450700-3390.

Um leið og við sendum þér og félaginu þínu fyrirfram þakkir fyrir aðstoðina hvetjum við þig til að virkja sem flesta félaga þína því margar hendur vinna létt verk – öllum til góðs!

Tölvupóstur:  blainaglinn@blainaglinn.is

Símanúmer:  775-1111