• fös. 06. apr. 2012
  • Landslið

U19 kvenna - Naumt tap gegn Frökkum í lokaleiknum

2012-U19kv-byrjunarlid-gegn-Rumeniu
2012-U19kv-byrjunarlid-gegn-Rumeniu

Stelpurnar í U19 töpuðu lokaleik sínum í milliriðli EM sem leikinn var Hollandi.  Frakkar voru mótherjir í lokaleiknum og höfðu þeir betur, 1 - 0 en eina mark leiksins kom strax á 8. mínútu.  Ísland endaði því með eitt stig í riðlinum en Rúmenar urðu efstir. og tryggðu sér því sæti í úrslitakeppninni.

Tómas Þóroddsson sendi okkur umfjöllun um leikinn og má sjá hana hér að neðan.

"Íslensku stúlkurnar í U19 ára landsliðinu tóku á móti Frökkum í síðasta leik milliriðils Evrópumótsins. Frakkarnir beittu ekkert ósvipaðri leikaðferð og hin liðin sem við höfum mætt, með því að liggja til baka og sækja hratt á okkur. Það tókst hjá þeim og unnu þær leikinn 1-0.

Byrjunarlið Íslands var eftirfarandi: Guðrún Valdís Jónsdóttir, Sigríður Lára Garðarsdóttir, Glódís perla Viggósdóttir, Telma Ólafsdóttir, Sóley Guðmundsdóttir, Anna María Baldursdóttir, Írunn Þorbjörg Aradóttir, Katrín Gylfadóttir, Ásta Eir Árnadóttir, Guðmunda Brynja Ólafsdóttir og Elín Metta Jensen.

Íslendingar byrjuðu betur, heldu bolta ágætlega og reyndu að finna glufu á vörn Frakka. En á 8. mín kom fyrsta sókn Frakka, er velheppnuð færsla frá hægri til vinstri opnaði vörn Íslendinga og sóknarmaður andstæðingana átti hnitmiðað skot yfir Guðrúnu í markinu.

Á 18. mín. var Elín Metta við það að sleppa í gegn, en á henni var brotið í vítateigshorni. Dómarinn vildi meina að brotið væri utan teigs. Katrín Gylfa tók flotta aukaspyrnu inn í þar sem Ásta Eir flikkaði boltanum á fjær og eftir klafs þar dæmdi dómarinn rangstöðu. Fjórum mínútum seinna varði Guðrún vel aukaspyrnu af 25 metra færi. Tveimur mínútum seinna sluppu þær frönsku í gegn eftir skyndisókn, en Guðrún  varði frábærlega með fótunum.

Þegar rúmlega hálftími var liðin af leiknum vann Anna María boltann á miðjunni, gaf á Elínu Mettu og fékk boltann strax aftur, en varnarmaður komst fyrir skot hennar. Stuttu síðar skiptu þær Gumma og Katrín Gylfa um stöðu.  Sóknarþungi íslensku stelpnanna jókst er leið á hálfleikinn og margar skemmtilegar sóknir sáust sem því miður náðu ekki alveg á markið. Elín Metta slapp ein í gegn eftir þríhyrningsspil við Önnu Maríu, en línuvörðurinn dæmdi rangstöðu.

Seinni hálfleikur byrjaði frekar rólega og á 54. mín kom Lára Kristín Pedersen inn fyrir Ástu Eir. Á 58. mín vann Írunn horn af miklu harðfylgi. Mikil hætta skapaðist í þvögu á markteig, en dómarinn dæmdi sóknarbrot. Tveimur mín seinna stakk Glódís inn á Gummu sem slapp ein í gegn, en með frábærri tæklingu náðu Frakkar að bjarga í horn. Frakkarnir náðu á síðustu stundu að hreinsa frá eftir atgang úr horninu.

Á 67. mín kom Telma Þrastardóttir inn fyrir Önnu Maríu sem varð fyrir smá hnjaski. Og enn jókst sóknarþunginn okkar stúlkna, Íslendingar mun meira með boltann og Frakkar ekkert að skapa sér. Fyrsta tilraun Frakka í seinni hálfleik kom svo á 72. mín, en Guðrún var vel vakandi og greip boltann örugglega. Fjórum mín seinna fann Sóley, Telmu Þrastar inn fyrir vörn Frakka, en markmaður þeirra varði mjög vel skot Telmu. Tveimur mín seinna kom Fjolla Shala inn fyrir Elínu Mettu.

Guðrún varði svo vel aukaspyrnu á 79. mín. Mínútu seinna spiluðu Gumma og Telma Þrastar sig snyrtilega í gegnum frönsku vörnina, en á síðustu stundu björguðu þær í horn. Upp úr horninu átti Glódís skalla sem bjargað var á línu og Írunn fylgdi vel á eftir, en skot hennar var varið.

Þegar um fimm mínútur voru eftir gerðist umdeilt atvikið. Telma Þrastar stakk sér í gegn, gaf fyrir á Láru sem var tekin niður innan teigs, boltinn barst til Írunnar og á henni var einnig brotið, en dómaranum virtist vanta kjark til að dæma.  Undir lok leiksins gaf Gumma svo góða sendingu inn á vítateig á Telmu Þrastar, hún sneri og lagði boltann út og þar kom Írunn og átti gott skot sem var vel varið.   

Lengra komust íslendingar ekki og einhvernvegin féll leikurinn alls ekki með okkur. Margt jákvætt má þó taka út úr þessari ferð, þó svo að úrslitin hafi ekki alveg fallið með okkur. Margar mjög ungar stúlkur höfðu lykilhlutverk í þessari keppni og voru t.d. 5 af yngsta ári og 5 af mið ári í 18 manna hóp. Þessi keppni á eftir að nýtast öllu liðinu gríðarlega vel inn í frekari verkefni í framtíðinni."