Viðurlög vegna leyfiskerfis 2012
Samkvæmt afgreiðslu leyfisráðs 13. og 22 mars á umsóknum félaga um þátttökuleyfi 2012 uppfylltu fimm félög ekki kröfu um menntun unglingaþjálfara. Þá skilaði eitt félag fjárhagslegum leyfisgögnum 16 dögum eftir lokaskiladag. Þessi félög voru því beitt viðeigandi viðurlögum.
Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ 30. mars var fjallað um þessi mál og var ákveðið að beita viðurlögum í samræmi við grein 14 í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál.
14.2.4 Forsendur sem leiða til viðurlaga ef þær eru ekki uppfylltar.
Ef forsenda er ekki uppfyllt, sem er skilgreind þannig að slíkt leiðir aðeins til viðurlaga, sbr. greinar 16.2 og 16.3 í Leyfisreglugerð KSÍ, skal taka mið af eftirfarandi viðurlögum:
- Fyrsta skipti, viðvörun.
- Annað skipti, áminning og sekt að upphæð allt að kr. 50.000.
- Eftir það, áminning og sekt að upphæð allt að kr. 100.000.
Ítrekunarkvöð fellur niður ef forsendan hefur verið uppfyllt í 3 ár samfleytt.
Í samræmi við ofangreint ákvæði var BÍ/Bolungarvík, Fylki, Stjörnunni og Víkingi R. veitt viðvörun þar sem um fyrsta brot var að ræða. ÍBV var hins vegar veitt áminning og félagið sektað um kr. 25.000 þar sem um annað brot félagsins var að ræða innan 3 ára, sbr. ítrekunarákvæði greinarinnar.
14.2.2 Tímamörk ekki uppfyllt.
Ef leyfisumsækjandi uppfyllir ekki sett tímamörk um framlagningu leyfisgagna skal hann sæta viðurlögum. Við ákvörðun þeirra skal taka mið af því hve alvarlegt brotið er. Eftirfarandi viðurlögum er hægt að beita:
- Viðvörun og sekt; við fyrsta brot skal beita dagsektum að upphæð kr. 2.500 fyrir hvern dag sem líður þangað til viðeigandi gögnum hefur verið skilað, að hámarki kr. 50.000.
- Áminning og sekt; við ítrekað brot skal beita dagsektum að upphæð kr. 5.000 fyrir hvern dag sem líður þangað til viðeigandi gögnum hefur verið skilað, að hámarki kr.100.000.
- Stigatap; við alvarlegt og ítrekað brot er jafnframt heimilt að draga allt að 3 stig frá félaginu í deildarkeppninni.
Ítrekunarkvöð fellur niður ef tímamörk hafa verið uppfyllt í 3 ár samfleytt.
Í samræmi við ofangreint ákvæði var Þrótti R. veitt áminning og félagið sektað um kr. 80.000 þar sem um annað brot félagsins var að ræða innan 3 ára, sbr. ítrekunarákvæði greinarinnar.