• mán. 02. apr. 2012
  • Landslið

U19 kvenna - Rúmenar höfðu betur í Hollandi

2012-U19kv-byrjunarlid-gegn-Rumeniu
2012-U19kv-byrjunarlid-gegn-Rumeniu

 

Stelpurnar í U19 léku í dag annan leik sinn í milliriðli EM en riðillinn er leikinn í Hollandi og voru Rúmenar mótherjarnir.  Rúmenska liðið reyndist sterkara og fór með sigur af hólmi, 2 – 0.

Tómas Þóroddsson sendi okkur umfjöllun um leikinn og má sjá hana hér að neðan.

Íslenska undir U19 ára landslið kvenna tók í gær á móti Rúmeníu í öðrum leik sínum í milliriðli Evrópumótsins. Rúmenar komu verulega á óvart er þeir unnu Frakka í fyrsta leik á meðan Íslendingar og Hollendingar gerðu jafntefli í fyrsta leik. Því miður héldu Rúmenar áfram á sigurbraut og unnu Íslendinga 2-0 og tryggðu sér í leiðinni sigur í riðlinum og sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins.

Byrjunarlið Íslands í dag var eftirfarandi: Þórdís María Aikman, Sandra María Jessen, Glódís Perla Viggósdóttir, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, Lára Kristín Pedersen, Anna María Baldursdóttir, Írunn Þorbjörg Aradóttir, Fjolla Shala, Telma Hjaltalín Þrastardóttir og Guðmunda Brynja Óladóttir.

Leikurinn var varla byrjaður er ein rúmensku stelpnanna tók boltann niður lék nokkra metra áfram og þrumaði boltanum af 25 metra færi og boltinn söng í netinu. Óverjandi fyrir Þórdísi í markinu og staðan orðin 1-0. Íslensku stelpurnar voru hálf vankaðar eftir þessa byrjun og kom fyrsta hálffæri þeirra ekki fyrr en á 19. mínútu, en það er ólíkt okkar stúlkum. Hálffærið fékk Telma Þrastar eftir undirbúning frá Gummu.

Íslensku þjálfararnir gerðu í framhaldinu stöðubreytingar er Fjolla og Sandra skiptu um stöðu og eins Gumma og Telma Þrastar. Stuttu síðar skiptu þær Írunn og Lára um stöðu. Næsta færi kom á 30. mín er Lára Kristín, Telma Þrastar og Gumma, með frábærri samvinnu lögðu upp færi fyrir Söndru sem var ranglega dæmd rangstæð er hún var komin ein í gegn.

Undir lok hálfleiksins voru þær Gumma og Telma Þrastar nálægt því að sleppa í gegn með mínútu millibili. Staðan því 1-0 fyrir þær rúmensku í hálfleik.

Rúmenar fengu fyrsta færi seinni hálfleiks eftir hornspyrnu, en ekkert varð úr því. Á 54. mínútu stakk Telma Þrastar sér í gegn gaf fyrir á Gummu sem var komin ein gegn markmanni, en markmaðurinn gerði mjög vel í því að verja skot Gummu. Fjórum mínútum seinna átti Gumma gott skot eftir góðan undirbúning frá Söndru og Láru, en skotið var varið. Mínútu seinna gerðu íslendingar tvær breytingar er Elín Metta Jensen og Svava Rós Guðmundsdóttir komu inn fyrir þær Fjollu og Gummu.

Íslensku stúlkurnar færðu sig enn framar á völlinn og þrýstu talsvert á vörn Rúmena sem var mjög traust. Á 73. mínútu varði Þórdís í markinu virkilega vel í horn. Upp úr horninu skoruðu Rúmenar annað mark sitt og nú með flugskalla og staðan því orðin 2-0.

Á 77. mínútu var Svava Rós aðgangshörð við markið en andstæðingarnir björguðu í horn. Á 82. mínútu kom Ásta Eir Árnadóttir inn fyrir Láru Kristínu. Stuttu síðar áttu Rúmenar sláarskot. Síðasta færi leiksins fengu svo íslendingar er Þórdís Hrönn átti frábæran sprett upp og laumaði boltanum snyrtilega inn á Telmu sem var komin ein gegn markmanni, en enn og aftur varði sú Rúmenska.

Íslensku stelpunum var einfaldlega ekki ætlað að skora í kvöld. Þær voru meira með boltann og áttu opnari færi. Á meðan Rúmenar skora eftir langskot sem hefði verið hægt að stoppa strax og svo úr föstu leikatriði. Það skal þó ekki taka neitt af þeim, enda með hörkulið og eiga skilið að komast í lokakeppni Evrópumótsins.

Næsti leikur Íslands er gegn Frökkum og fer hann fram fimmtudaginn 5. apríl kl 14.00 á íslenskum tíma. Með sigri þar tryggjum við okkur annað sætið, en besti árangur í 2. sæti tryggir þátttöku í lokakeppnina og því er ennþá veik von.