• fim. 29. mar. 2012
  • Pistlar

Hin bjarta framtíð

Geir Þorsteinsson
Geir-Thorsteinsson-April-2011-minni

Það er eflaust verið að bera í bakkafullan lækinn þegar talað er um hversu marga unga og efnilega leikmenn íslensk knattspyrna á, bæði í röðum karla og kvenna.  Það þykir eflaust líka klisja að vera að tala um að framtíð íslenskrar knattspyrnu sé björt.  En raunin er einfaldlega sú að þessar fullyrðingar eiga báðar rétt á sér, sérstaklega þegar litið er til síðustu ára og þess árangurs sem landsliðin okkar hafa verið að ná á alþjóðlegum vettvangi.  Það er sannarlega hægt að segja að það sé orðin regla frekar en undantekning ef yngri landsliðin okkar komast upp úr undankeppni EM og í milliriðla.  Eftir þessum árangri er tekið í Evrópu og margar þjóðir horfa með öfundaraugum til Íslands, íslenskra leikmanna og þeirrar aðstöðu sem við getum boðið okkar leikmönnum upp á til æfinga, svo ekki sé minnst á sterka stöðu þjálfaramenntunar í aðildarfélögum KSÍ.  Enn fleiri klisjur, en allar sannar.

U17 karla - Norðurlandameistara 2011 - Mynd Páll JóhannessonÁrangur landsliðanna okkar á síðustu árum hefur einfaldlega verið með ólíkindum.  Hér fyrir neðan er stutt yfirlit þar sem stiklað er á stóru um þennan góða árangur.  Árið 2007 léku tvö yngri landslið í úrslitakeppni EM.  Annað þeirra var U19 lið kvenna, en sú keppni var einmitt haldin hér á landi.  U17 landslið karla komst í úrslitakeppni EM sem fram fór í Belgíu sumarið 2007 og sá leikur var endurtekinn í ár, en sú keppni fer fram í Slóveníu.  Árið 2009 komst A landslið kvenna í úrslitakeppni EM í Finnlandi eftir eftirminnilegt umspil við Írland á frosnum Laugardalsvelli, og sama ár lék U19 kvenna í úrslitakeppni EM í Hvíta-Rússlandi.  A lið kvenna er í lykilstöðu í sínum riðli í undankeppni EM 2013 og gæti leikið í úrslitakeppninni í Svíþjóð á næsta ári.   Sumarið 2011 voru aftur tvö íslensk landslið í úrslitakeppni EM.  U21 landslið karla háði einn mest spennandi landsleik síðari ára þegar hinir dönsku heimamenn voru lagðir 3-1 í lokaleik riðlakeppninnar og Ísland var aðeins einu marki frá því að komast í undanúrslit.  U17 landslið kvenna komst í úrslitakeppni EM, sem haldin var við höfuðstöðvar UEFA í Sviss.  Rétt er að halda því til haga að í þeirri úrslitakeppni léku aðeins fjögur lið, og var íslenska liðið því réttilega sagt vera eitt af fjórum bestu liðum Evrópu í aldursflokknum. 

Íslenska liðið fyrir leikinn gegn Þjóðverjum á NM U17 kvenna 2010Sem fyrr segir hér í þessum pistli hefur U17 landslið karla tryggt sér sæti í lokakeppni EM.  Bæði yngri landslið kvenna eiga, þegar þetta er ritað, eftir að leika í sínum milliriðlum fyrir EM.  Það gætu því verið fleiri íslensk landslið þetta árið í lokakeppni EM.  Auðvitað er það ekki í hendi, en árangur síðustu ára sýnir svo um munar að við höfum getuna.

Draumurinn er auðvitað sá að það verði regla frekar en undantekning að íslensk landslið komist í lokakeppni í sínum aldursflokkum.  Auðvitað er best að halda báðum fótum á jörðinni, en það er allt í lagi að láta sig dreyma.  Svo ég ljúki þessu á góðri klisju:  Framtíð íslenskrar knattspyrnu er svo sannarlega björt!

2012

  • U17 kvenna í milliriðli í apríl 2012
  • U17 karla í úrslitakeppni EM 2012
  • U19 kvenna í milliriðli EM 2012 um mánaðamótin mars/apríl

2011

  • A kvenna lék til úrslita á Algarve Cup
  • U21 karla í úrslitakeppni EM
  • U19 karla vann sigur á sterku móti í Svíþjóð
  • U19 kvenna í milliriðli EM
  • U17 karla í milliriðli EM
  • U17 karla með tvö lið í NM, Norðurlandameistari og 4. sætið.
  • U17 kvenna í úrslitakeppni EM

2010

  • A kvenna í 2. sæti síns riðils í undankeppni HM 2011
  • U19 kvenna í milliriðli EM

2009

  • A kvenna í úrslitakeppni EM
  • U19 kvenna í úrslitakeppni EM

2008

  • U19 karla í milliriðli EM
  • U19 kvenna í milliriðli EM
  • U17 kvenna í milliriðli EM

2007

  • U19 kvenna í úrslitakeppni EM (gestgjafar)
  • U19 karla í milliriðli EM
  • U17 karla í úrslitakeppni EM

2006

  • U19 kvenna í milliriðli EM

2005

  • ---

2004

  • U17 karla í milliriðli EM
  • U19 kvenna í milliriðli EM
  • A kvenna í umspili um sæti í úrslitakeppni EM