Ísland í úrslitakeppni EM U17 karla!
U17 landslið karla vann í dag 4-0 stórsigur á Litháen í milliriðil fyrir EM, og á sama tíma vann Danmörk 3-2 sigur á Skotum. Þessi úrslit þýða að Ísland er komið í úrslitakeppnina, sem fram fer í Slóveníu í maí, og hafnar íslenska liðið í efsta sæti riðilsins með 7 stig, jafn mörg og Danir, en með betri markatölu. Frábær árangur sem sýnir enn og aftur hið öfluga starf í uppeldi ungra knattspyrnumanna hér á landi. Ísland var einnig í úrslitum EM U17 karla árið 2007, en það ár fór úrslitkeppnin fram í Belgíu.
Íslenska liðið var alltaf líklegri aðilinn í leiknum í dag og í raun bara spurning um hversu stór sigurinn yrði. Strákarnir sóttu grimmt, enda var ljóst að sigurinn yrði að vera stærri en sigur Dana á Skotum, ef af honum yrði, til að íslenska liðið myndi taka efsta sæti milliriðilsins, og þar með sæti í úrslitakeppninni.
Tvö mörk voru skoruð í hvorum hálfleik. Oliver Sigurjónsson skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu á 15. mínútu og Páll Þorsteinsson bætti öðru við á þeirri 21. Daði Bergsson skoraði þriðja mark íslenska liðsins á 53. mínútu og skömmu síðar var leikmanni Litháa vísað af leikvelli með sitt annað gula spjald. Síðasta mark leiksins kom síðan á 69. mínútu og var þar að verki Kristján Flóki Finnbogason.