• mið. 14. mar. 2012
  • Landslið

U17 kvenna - Leikið við Dani á sunnudag og þriðjudag

Danski-U17-hopurinn
Danski-U17-hopurinn

Framundan eru tveir vináttulandsleikir gegn Dönum hjá U17 kvenna og fara báðir leikirnir fram í Egilshöll.  Fyrri leikurinn verður sunnudaginn 18. mars og hefst kl. 11:45, en ekki kl. 12:00 eins og áður var fyrirhugað. Sá síðari verður þriðjudaginn 20. mars og hefst kl. 18:00.

Þessir leikir eru góður undirbúningur fyrir keppni í milliriðlum EM en þar verða báðar þjóðirnar í eldlínunni.  Íslensku stelpurnar leika í Belgíu, dagana 13. - 18. apríl.  Þar eru þær í riðli með Englandi, Sviss og heimastúlkum.  Danska liðið verður seinna á ferðinni, leikur í sínum riðli á heimavelli dagana 26. apríl - 1. maí.  Mótherjar þeirra verða: Finnland, Holland og Svíþjóð. 

Eitt lið úr hverjum riðli fer svo í úrslitakeppnina sem að venju er leikin í Nyon í Sviss en þar var Ísland á meðal þátttakenda á síðasta ári.  Einungis fjórar þjóðir komast í úrslitakeppnina og verður svo í ár sem og árið 2013.  Frá og með árinu 2014 munu 8 þjóðir leika í úrslitakeppninni.

Danir hafa tilkynnt hóp sinn og má sjá hann hér að neðan.

Við hvetjum allt knattspyrnuáhugafólk til að koma í Egilshöllina og hvetja stelpurnar í skemmtilegum leikjum.

Danski hópurinn