• fös. 09. mar. 2012
  • Landslið

Sjónvarpsútsendingar frá íslenskri knattspyrnu

Sportmyndir_30P5752
Sportmyndir_30P5752

Allt frá árinu 1994 hefur KSÍ selt Sportfive (áður UFA) sýningarrétt frá íslenskri knattspyrnu, fyrst landsleikjum en síðan einnig frá Íslandsmóti og bikarkeppni frá árinu 1998.  Með þessu hafa tekjur til íslenskrar knattspyrnu aukist verulega.

Sportfive hefur nú selt sýningarréttinn á Íslandsmótinu og bikarkeppni í meistaraflokki til 365 miðla fyrir árin 2012 og 2013. Það þýðir að beinar útsendingar frá leikjum í þessum mótum eru tryggðar líkt og áður og hefur það mikla þýðingu fyrir íslenska knattspyrnu.  Ekki er ljóst hvernig útsendingum verður að öðru leyti háttað  og fullyrðingar um það eru ótímabærar. 

Það skal tekið fram að á þessum tímapunkti hefur Sportfive ekki selt sýningarréttinn frá heimalandsleikjum Íslands sem fara fram á þessu og næsta ári og standa þau réttindi öllum íslenskum sjónvarpsstöðvum til boða.