• fim. 08. mar. 2012
  • Landslið

U19 kvenna - Frækinn sigur á Englendingum

U19 landslið kvenna
ksi-u19kvenna

Stelpurnar í U19 lögðu í dag Englendinga með þremur mörkum gegn tveimur í vináttulandsleik á La Manga.  Þetta var þriðji og síðasti leikur stelpnanna í ferðinni en þær höfðu tapað naumlega fyrir Skotum og Norðmönnum áður.  Íslenska liðið lenti tveimur mörkum undir í síðari hálfleik en, með elju og seiglu, tókst þeim að innbyrða sigur.

Englendingar leiddu í leikhléi, 1 - 0 en það var íslenska liðið sem var töluvert sterkara í fyrri hálfleiknum.  Fengu ein fimm mjög góð færi en allt kom fyrir ekki.  Enska liðið bætti svo við öðru marki í síðari hálfleik úr vítaspyrnu og útlitið ekki gott.  En þrjú mörk á síðustu 20 mínútunum innbyrtu sætan sigur.  Telma Þrastardóttir minnkaði muninn rétt eftir annað mark Englendinga og Sigríður Lára Garðarsdóttir jafnaði metin með skalla þegar um 10 mínútur voru eftir.  Rétt áður hafði Aldís Kara Lúðvíksdóttir átt skot í stöngina hjá Englendingum.  Fimm mínútum fyrir leikslok kórónaði svo Telma Þrastardóttir frábæran kafla þegar hún tryggði íslenskan sigur með sínu öðru marki.

Þessir þrír vináttulandsleikir eru undirbúningur liðsins fyrir milliriðil EM sem fer fram í Hollandi og hefst í lok þessar mánaðar.  Þar leika stelpurnar gegn heimastúlkum, Frökkum og Rúmenum.