A kvenna - 6. sætið á Algarve Cup
Íslenska kvennalandsliðið hafnaði í 6. sæti á Algarve Cup sem lauk í dag. Íslendingar biðu lægri hlut gegn Dönum í leik um 5. sætið, 1 - 3. Það var Hólmfríður Magnúsdóttir sem skoraði mark Íslands undir lok fyrri hálfleiks og minnkaði þá muninn í 1 - 2.
Danir fengu sannkallaða óskabyrjun og skoruðu strax á 2. mínútu. Þeir bættu svo við öðru marki á 17. mínútu. Íslenska liðið komst svo smám saman meira inn í leikinn er leið á hálfleikinn og á 44. mínútu skoraði Hólmfríður Magnúsdóttir eftir að hafa hirt boltann af markverði Dana.
Íslenska liðið byrjaði síðari hálfleikinn vel en Danir voru aldrei langt undan og fengu bæði lið góð færi í síðari hálfleiknum. Hólmfríður og Gunnhildur Yrsa fengu bestu færi Íslands í síðari hálfleiknum en það voru Danir sem skoruðu eina mark hálfleiksins á 88. mínútu og fögnuðu sigri í leikslok. Farið var að draga af báðum liðum undir lok leiksins enda fjórði leikurinn á átta dögum.