Lokayfirferð leyfisgagna
Nú stendur yfir lokayfirferð leyfisgagna þeirra félaga sem undirgangast leyfiskerfi KSÍ og hyggjast leika í efstu tveimur deildum Íslandsmóts karla 2012. Lokaathugasemdir vegna fjárhagsþátta verða senda til félaganna í byrjun vikunnar ásamt því sem minnt verður á útistandandi athugasemdir vegna annarra þátta.
Alls skiluðu 23 af þeim 24 félögum sem leika í efstu tveimur deildum fjárhagsgögnum sínum innan tímamarka (lokaskiladagur 20. febrúar), en þegar þetta er ritað hafa fjárhagsgögn ekki borist frá Þrótti R.
Fundi leyfisráðs, sem áætlaður var miðvikudaginn 7. mars, hefur verið frestað til þriðjudagsins 13. mars, vegna fjarveru meðlima ráðsins.
Úr reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál:
14.2.2 Tímamörk ekki uppfyllt.
Ef leyfisumsækjandi uppfyllir ekki sett tímamörk um framlagningu leyfisgagna skal hann sæta viðurlögum. Við ákvörðun þeirra skal taka mið af því hve alvarlegt brotið er. Eftirfarandi viðurlögum er hægt að beita:
- Viðvörun og sekt; við fyrsta brot skal beita dagsektum að upphæð kr. 2.500 fyrir hvern dag sem líður þangað til viðeigandi gögnum hefur verið skilað, að hámarki kr. 50.000.
- Áminning og sekt; við ítrekað brot skal beita dagsektum að upphæð kr. 5.000 fyrir hvern dag sem líður þangað til viðeigandi gögnum hefur verið skilað, að hámarki kr.100.000.
- Stigatap; við alvarlegt og ítrekað brot er jafnframt heimilt að draga allt að 3 stig frá félaginu í deildarkeppninni.
Ítrekunarkvöð fellur niður ef tímamörk hafa verið uppfyllt í 3 ár samfleytt.