U21 karla - Ósigur í Aserbaídsjan
Strákarnir í U21 lutu í lægra haldi í dag fyrir Aserbaídsjan en leikið var í Bakú. Leiknum lauk með sigri heimamanna, 1 - 0 og kom markið á 41. mínútu leiksins.
Leikurinn var nokkuð jafn, íslenska liðið sótti meira í byrjun leiks en leikurinn jafnaðist og heimamenn sóttu í sig veðrið undir lok fyrri hálfleiks. Mark þeirra kom einmitt þegar fjórar mínútur lifðu fyrri hálfleiks og kom það eftir vel útfærða aukaspyrnu.
Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað en íslenska liðið hafði svo undirtökin upp úr miðjum hálfleiknum og til loka. Liðið sótti mikið en náði ekki að skapa sér mörg færi. Besta færið kom þegar Hörður Björgvin Magnússon skallaði í slána þegar um 15 mínútur voru eftir af leiknum.
Heimamenn fögnuðu því sigri og skutust upp fyrir Íslendinga í riðlinum, hafa fjögur stig eftir 5 leiki en Íslendingar hafa þrjú stig, einnig eftir 5 leiki. Næsti leikur Íslendinga í riðlinum er einmitt gegn Aserum, þá á Laugardalsvelli, 5. júní næstkomandi.