• mið. 29. feb. 2012
  • Landslið

A karla - Sigurmark Svartfellinga í lokin

A landslið karla
ksi-Akarla

Íslendingar biðu lægri hlut gegn Svartfellingum i vináttulandsleik þjóðanna sem fram fór í Podgorica í kvöld.  Lokatölur urðu 2 - 1 fyrir heimamenn eftir að markalaust hafði verið í leikhléi.  Alfreð Finnbogason skoraði mark Íslendinga og jafnaði þá metin.

Fyrri hálfleikur var vel leikinn af hálfu íslenska liðsins.  Heimamenn byrjuðu betur en Íslendingar komust svo meira inn í leikinn og mættu heimamönnum framarlega á vellinum.  Birkir Bjarnason var nálægt því í þrígang að skora í hálfleiknum en hafði ekki heppnina með sér.  Markalaust var því þegar dómari leiksins, sem kom frá Bosníu/Hersegóvínu, flautaði til leikhlés.

Heimamenn voru sterkari aðilinn í síðari hálfleik og áttu sláarskot strax eftir 45 sekúndur.  Íslenska liðið náði ekki tökum á leiknum eins og í fyrri hálfleiknum og Svartfellingar komust yfir á 56. mínútu.  Eftir hraða sókn komust þeir upp vinstri kantinn og eftir fyrirgjöf skallaði Stevan Jovetic boltann í netið af markteig.  Undirtökin voru ennþá heimamanna en á 79. mínútu jöfnuðu Íslendingar.  Varamennirnir Aron Einar Gunnarsson og Alfreð Finnbogason áttu þar hlut að máli.  Aron Einar sendi inn á  Alfreð sem tók sér góðan tíma áður en hann skoraði með vinstri fæti í fjærhornið.  Aðeins tveimur mínútum síðar var hann hársbreidd frá því að koma Íslendingum yfir með hægri fætinum.  Gylfi komst inn í sendingu til marksmanns Svartfellinga við endalínu, sendi út á Alfreð sem átti skot í samskeytin.  Boltinn hrökk út til Jóhanns Bergs sem skaut framhjá úr góðu færi.  Sigurmarkið kom svo á 86. mínútu var þar Stevan Jovetic aftur á ferðinni með glæsilegu marki. 

Nokkuð kaflaskiptur leikur, íslenska liðið hættulegri aðilinn í fyrri hálfleik en heimamenn töluvert sterkari í síðari hálfleik. 

Næsta verkefni landsliðsins er svo vináttulandsleikur gegn Frökkum ytra, 27. maí og þremur dögum síðar verður leikið gegn Svíum.