Þrír landsleikir á hlaupársdag
Hlaupársdagurinn 29. febrúar verður mikill landsleikjadagur en þá eru þrjú íslensk landslið í eldlínunni, A landslið karla og kvenna og U21 karla. Karlalandsliðið leikur í Svartfjallalandi, kvennalandsliðið leikur gegn Þjóðverjum á Algarve og U21 karla leikur í undakeppni EM gegn Aserbaídsjan í Bakú.
Leikir A landsliðanna eru vináttulandsleikir, karlarnir leika í Podgorica höfuðborg Svartfjallalands en leikur kvennanna er fyrsti leikur liðsins á hinu geysisterka móti Algarve Cup. Aðrir andstæðingar Íslands í riðlinum þar eru Svíar og Kínverjar.
Strákarnir í U21 karla hafa hinsvegar lagt í langt ferðalag þar sem þeir leika við Aserbaídsjan í Bakú. Sá leikur er í undankeppni EM þar sem Íslendingar hafa 3 stig eftir fjóra leiki en Aserar eru með eitt stig eftir jafnmarga leiki. Eina stig heimamanna til þessa í riðlinum kom gegn Belgum í síðasta leik liðsins í riðlinum. Þeim leik lauk með jafntefli, 2 - 2 en leikurinn fór fram í Aserbaídsjan.
Tveir af þessum leikjum hefjast kl. 14:00 að íslenskum tíma, þ.e. leikir kvennalandsliðsins og U21 karla. Leikur Svartfjallalands og Íslands hefst svo kl. 17:00.