Pálmi Rafn Pálmason í landsliðshópinn
Lars lagerbäck, þjálfari A landsliðs karla, hefur boðað Pálma Rafn Pálmason til Svartfjallalands vegna vináttulandsleiks við heimamenn í Podgorica á miðvikudag. Pálmi, sem leikur með Lilleström í Noregi, verður kominn fyrir fyrstu æfingu liðsins, á mánudagskvöld.
Aron Einar Gunnarsson meiddist lítillega undir lok úrslitaleiks enska deildarbikarsins með liði sínu Cardiff og Emil Hallfreðsson varð fyrir minniháttar hnjaski á æfingu með Verona um helgina. Engu að síður koma þeir til Svartfjallalands á mánudag samkvæmt áætlun, eins og aðrir leikmenn sem valdir voru í hópinn, og fá meðhöndlun hjá sjúkrateymi íslenska landsliðsins.
Þjálfarateymið ákvað að taka enga áhættu ef til þess kæmi að Aron og Emil gætu ekki tekið fullan þátt í leiknum við Svartfellinga og ákváðu því að bæða miðjumanninum Pálma Rafni í hópinn.
Leikurinn fer sem fyrr segir fram á miðvikudag og hefst kl. 17:00 að íslenskum tíma. Leikið verður á Pod Goricom leikvanginum, sem er aðeins steinsnar frá hóteli íslenska liðsins.
Ekkert íslenskt knattspyrnulandslið hefur áður mætt landsliði Svartfjallalands.