• fös. 24. feb. 2012
  • Landslið

"Á heildina litið var ég sáttur við frammistöðuna"

Lars Lagerbäck
052

Á blaðamannafundi eftir leik Japans og Íslands sat Lars Lagerbäck fyrir svörum japanskra fjölmiðla. Þjálfari íslenska liðsins fékk spurningar um frammistöðu beggja liða, einstaka leikmenn Íslands og hvers vegna hann hafi notað svæðisvörn.

Lars sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með að fá á sig mark strax eftir 2 mínútur, því ætlunin hafi verið að leika með þétta vörn strax frá byrjun. „Ég var ekki sáttur við fyrstu 20-25 mínúturnar, en eftir það fannst mér vöxtur í leik liðsins og á heildina litið var ég sáttur við frammistöðuna. Auðvitað vildi ég alls ekki tapa, en við verðum að taka tillit til þess að flestir leikmennirnir hafa aldrei spilað fyrri framan svona áhorfendur, nokkrir voru að spila sinn fyrsta landsleik og auk þess spilaði japanska liðið einfaldlega vel í leiknum."

Heimamenn voru hrifnir af frammistöðu Steinþórs Freys Þorsteinssonar og Arnórs Smárasonar. „Nei, við höfðum svo sem ekki æft þessi innköst Steinþórs sérstaklega, en það var alltaf klárt að hann ætti að taka þau þegar hann kæmi inn á. Viðbrögð áhorfenda voru ánægjuleg og þetta var skemmtilegt krydd í leikinn, en við gerum þetta ekki fyrir áhorfendur. Málið er að ég vil fá boltann inn í teig eins oft og hægt er og er þú ert með svona mann í liðinu, sem getur kastað eins og Steinþór, þá notarðu hann, þetta er svipað og að fá hornspyrnu. Arnór var frískur í leiknum, svo sannarlega leikmaður framtíðarinna, áræðinn og sókndjarfur, óhræddur við að reyna ýmsa hluti í sóknarleiknum."

Japanarnir sögðust hafa búist við að íslenska liðið mynda verjast með því að dekka maður á mann, sérstaklega í föstum leikatriðum, en Lars vill heldur leika svæðisvörn. Hvers vegna?

Að mínu mati er betra fyrir varnarmann að leika svæðisvörn, því þá getur hann einbeitt sér að boltanum og þarf ekki að leita að sóknarmanninum, þarf ekki að sjá mann og bolta. Þetta tel ég einfaldara og þetta er sú aðferð sem ég vil nota."

Að spurningunum loknum þökkuðu japanskir fjölmiðlamenn Lars fyrir með þéttu lófataki.