• fim. 23. feb. 2012
  • Landslið

Leikur Japans og Íslands sýndur á Stöð 2 Sport

300px-Nagai_stadium20040717
300px-Nagai_stadium20040717

Vináttulandsleikur Japans og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á morgun, föstudaginn 24. febrúar.  Leikurinn hefst kl. 10:20 að íslenskum tíma en útsendingin hefst 10 mínútum fyrr.

Mikill áhugi er fyrir leiknum ytra og er uppselt á Nagai leikvanginn í Osaka en þessi völlur tekur um 50.000 manns.  Leikið var m.a. á þessum velli á HM 2002 en þrír af leikjum keppninnar fór þar fram.  Þessar þjóðir hafa mæst tvisvar áður og hafa Japanir farið með sigur af hólmi í bæði skiptin.  Fyrst árið 1971 þegar þjóðirnar léku á Laugardalsvelli, 0 – 2 og seinna árið 2004 þegar þjóðirnar léku í Manchester, 2 – 3.

Þetta er fyrsti leikur Íslands undir stjórn Lars Lagerbäck og Heimis Hallgrímssonar, aðstoðarþjálfara.  Næsta verkefni er svo skammt undan, vináttulandsleikur gegn Svartfjallalandi, ytra, 29. febrúar. 

Sá fágæti miðvikudagur verður annasamur í meira lagi hjá íslensku knattspyrnufólki því þrjú landslið Íslands verða þá í eldlínunni.  Karlalandsliðið leikur í Svartfjallalandi, kvennalandsliðið leikur gegn Þjóðverjum á Algarve og U21 karla leikur í undakeppni EM gegn Aserbaídsjan í Bakú.