"Gott tækifæri fyrir mig að sjá skapgerð leikmanna"
Lars Lagerbäck, þjálfari A landsliðs karla, er að undirbúa lið sitt undir fyrsta leikinn undir hans stjórn, vináttuleik gegn Japan í Osaka 24. febrúar. Liðið æfði á keppnisvellinum undir kvöld og fyrir æfinguna svaraði þjálfarinn örfáum spurningum ksi.is, áður en hann sat fyrir svörum hjá Japönskum fjölmiðlum.
Aðspurður um markmiðin í leiknum hafði Lars þetta að segja:
Þetta er auðvitað fyrsti leikurinn minn með liðið, fyrsti vináttuleikurinn. Ég vonast fyrst og fremst eftir góðri frammistöðu, en úrslit leiksins eru líka mikilvæg, þó þetta sé vináttuleikur er alltaf mikilvægt að reyna að ná góðum úrslitum, vonandi sigri. Ég vonast til að halda áfram með þá vinnu sem við byrjuðum á í æfingabúðunum á Íslandi í janúar, sjá hvernig leikmennirnir bregðast við því sem við höfum lagt upp með, sjá þá spila eins og við viljum að þeir spili. Allir leikmennirnir sem eru í þessum tveimur hópum, gegn Japan og Svartfjallalandi, eiga jafn mikinn möguleika í framtíðinni. Hér geta þeir sýnt hvers þeir eru megnugir. Þess vegna er frábært fyrir mig að geta skoðað hátt í 40 leikmenn, enda er það frekar óvenjulegt að vera með tvo algjörlega aðskilda hópa leikmanna í tvo vináttuleiki með svo stuttu millibili. Bæði liðin sem við erum að fara að spila við eru mjög sterk, sem er gott, því maður sér alltaf best úr hverju leikmenn eru gerðir þegar þeir lenda í erfiðum aðstæðum. Það var líka gott á vissan hátt að spila vináttuleiki þar sem langs ferðalags er krafist, því það reynir líka á leikmennina, álag utan vallar, þá sést líka hvernig menn höndla það álag og hvort það hafi áhrif á frammistöðu. Þessir tveir leikir eru flott tækifæri fyrir mig til að sjá skapgerð leikmanna.
Hvað veit Lars um japanska liðið?
Þeir munu bara nota leikmenn sem leika í Japan, þannig að þarna verða einhverjir leikmenn að spila sinn fyrsta landsleik. Mér skilst að annars væru milli 8 og 10 leikmenn í hópnum sem leika með félagsliðum utan japans. Japanska deildin er sterk. Þó að menn telji liðin ólík á velli og með ólíkan leikstíl, þá er í raun ekki mikill munur á leikaðferðum landslið í heiminum í dag. Það er kannski hægt að sjá ákveðinn mun á leikmönnum milli þjóða, Japanir eru kannski ekki stórir og sterkir líkamlega, en alveg gríðarlega vinnusamir og snöggir leikmenn, hlaupa mjög mikið.
Lars hefur ekki ákveðið hvaða leikmaður muni bera fyrirliðabandið í leiknum við Japan, en málefni fyrirliða voru aðeins rædd á fundi liðsins í morgun og hafði þjálfarinn reyndi þetta að segja:
Fyrirliði verður að njóta virðingar í leikmannahópnum, vera leiðtogi innan vallar sem utan. Inni á vellinum þarf hann að geta drifið leikmenn áfram. Hann þarf alltaf að sýna 100% fagmennsku, vera fyrirmynd annarra. Hann ætti jafnframt að vera andlit liðsins út á við og koma fram sem fulltrúi liðsins.