• fös. 17. feb. 2012
  • Lög og reglugerðir

Minnt er á bráðabirgðaákvæði varðandi félagaskipti

Sportmyndir_30P6885
Sportmyndir_30P6885

Nú þegar keppni í Lengjubikarnum er að hefjast er rétt að minna félögin á bráðabirgðaákvæði í reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga. Þetta er grein 3.6 og er bráðabirgðaákvæði fyrir keppnistímabilið 2012 sem samþykkt var á stjórnarfundi KSÍ þann 25. janúar síðastliðinn. Greinin er svohljóðandi:

Ný grein 3.6. (Bráðabirgðaákvæði fyrir keppnistímabilið 2012).

Leikmaður sem er handhafi keppnisleyfis sem tekur gildi 22. febrúar 2012 hefur heimild til að taka þátt í deildarbikarkeppni KSÍ (Lengjubikarnum) með nýja félaginu frá og með þeim degi er keppnisleyfið er gefið út.

Greinargerð:

Deildarbikarkeppni KSÍ (Lengjubikarinn) hefst nú áður en félagaskiptagluggi opnar þann 22. febrúar. Þeim félögum er leika í deildarbikarnum áður en félagaskiptaglugginn opnar er með þessu gert kleift að leika með leikmenn sem hafa fengið útgefið keppnisleyfi sem tekur gildi 22. febrúar 2012. Rétt er að benda á að ekki er hægt að hefja félagaskiptaferli hjá leikmönnum sem eru að skipta um félag á milli landa, og fara í gegnum rafrænt félagaskiptakerfi FIFA (TMS), fyrr en 22. febrúar 2012. Keppnisleyfi er þó hægt að gefa út fyrr á leikmenn sem hafa félagaskipti á milli landa og þurfa ekki að fara í gegnum rafrænt félagaskiptakerfi (TMS), s.s. áhugamenn.