• fim. 26. jan. 2012
  • Pistlar

Kveðja frá KSÍ

Sigursteinn-Gislason
Sigursteinn-Gislason

 

Knattspyrnuhreyfingin hefur misst góðan félaga, Sigurstein Gíslason, sem var kallaður af leikvelli lífsins aðeins 43 ára.

Sigursteini kynntist ég þegar hann var leikmaður í 2. aldursflokki. Áhugi hans á knattspyrnu var mikill og hæfileikaríkur var hann.  Keppnisskapið var einstakt sem og sigurviljinn.  Hann var maður liðsheildarinnar og kunni að gefa af sér enda var hann strax í 2 . aldursflokki fenginn til að þjálfa yngstu iðkendurna.  En þjálfun varð að bíða því að við tók glæsilegur ferill Sigurstein innan vallar í meistaraflokki og sigrarnir urðu margir. Sigursteinn varð oftar Íslandsmeistari í knattspyrnu en nokkur annar leikmaður af hans kynslóð eða 9 sinnum með Akranesi og KR.  Hann var stoltur að leika fyrir Íslands hönd og alls lék hann 22 landsleiki á tímabilinu 1993 -1999. Þá lék Sigursteinn um skamma hríð erlendis með Stoke City veturinn 1999 - 2000.

Sigursteinn hafði að loknum leikmannsferli sínum fetað  sín fyrstu spor í þjálfun í meistaraflokki og ljóst var að hann og knattspyrnan yrðu ekki viðskila. Glæsilegur árangur hans með Leikni R. vakti verðskuldaða athygli en hann þjálfaði einnig hjá KR og Víkingi R.

Sigursteinn var sæmdur gullmerki KSÍ fyrir afrek sín 2. desember sl. þegar honum og Gunnari Guðmannssyni voru afhent fyrstu eintökin af síðara bindi 100 ára sögu Íslandsmótsins. Þeir áttu það sameiginlegt að hafa orðið Íslandsmeistarar 9 sinnum hvor, en á ólíkum tímabilum.  Ég fann vel að Sigursteinn var stoltur af þessum heiðri en við ræddum um baráttu hans fyrir lífinu, hann var augljóslega þjakaður en vonin og sigurviljinn var til staðar.

Á kveðjustundu minnumst við góðs knattspyrnufélaga, en umfram allt góðs drengs sem naut virðingar og hylli.  Knattspyrnuhreyfingin sendir ættingjum Sigursteins, eiginkonu og börnum innilega samúðarkveðju.

Geir Þorsteinsson,

formaður KSÍ.