• mið. 18. jan. 2012
  • Leyfiskerfi

Leyfisgögn komin frá öllum 24 félögunum

Ldv_2010_Atburdir-218
Ldv_2010_Atburdir-218

Leyfisstjórn hefur móttekið leyfisgögn allra leyfisumsækjendanna 24 sem leika í efstu tveimur deildum karla.  Lokaskiladagur var mánudagurinn 16. janúar og voru öll félögin innan tímamarka.  Nokkuð hefur verið um það síðustu ár að félög skili mun fyrr og var engin undantekning á því í ár, enda hafa gögn verið að berast frá því síðasta haust.

Tvö félög sem leika í 2. deild hafa einnig óskað eftir því að undirgangast leyfiskerfið, Njarðvík og Grótta.  Leyfisstjórn mun meta gögn þeirra á sama hátt og gögn annarra félaga, en þessi félög sæta þó engum viðurlögum séu einhverjar greinar ekki uppfylltar.  Það ber vott um mikinn metnað félaganna tveggja að undirgangast leyfiskerfið þrátt fyrir að leika ekki í efstu tveimur deildum.

Þau gögn sem skilað er nú snúa að ýmsum þáttum, s.s. uppeldisáætlun ungra leikmanna og menntun þjálfara, mannvirkjaþáttum, lagalegum atriðum og ýmsu öðru sem snýr að knattspyrnulegum þáttum, skipulagi félaga og hæfni starfsfólks. 

Fjárhagslegum gögnum þarf síðan að skila eigi síðar en 20. febrúar.  Í því samhengi er gaman að segja frá því að eitt félag, Víkingur Ólafsvík, skilaði ekki bara ofangreindum gögnum á mánudag, heldur líka fjárhagslegum gögnum.  Þar á meðal er ársreikningur með áritun endurskoðanda ásamt ýmsum þeim fjárhagslegu staðfestingum sem krafist er.

Leyfisstjórn vinnur með félögunum í framhaldi á skilum, gerir athugasemdir þar sem við á og gerir tillögur að úrbótum.