Æfingabúðunum lokið
Eins og kynnt hefur verið valdi Lars Lagerbäck, þjálfari A landsliðs karla, tæplega 30 manna hóp sem var kallaður saman til æfinga hér á landi. Þessi hópur hefur æft og fundað stíft síðustu daga. Lars hefur farið ítarlega yfir sínar hugmyndir með leikmönnum og sýnt þær í verki á æfingum.
Þessum æfingabúðum lauk í dag, laugardag, með því að hópnum var skipt í tvö lið sem léku í 2x30 mínútur. Heimir Hallgrímsson, aðstoðarþjálfari liðsins stjórnaði af bekknum öðrum megin, og hinum megin var við stjórnvölinn Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari A landsliðs kvenna. Aðeins eitt mark var skorað í leiknum, enda varnir beggja liða þéttar. Enda hefur Lars þá grunnhugmynd að byggja leikaðferð sinna liða á öflugum varnarleik og leist honum afar vel á frammistöðu þessara leikmanna, sem leika með liðum hér á landi og í Skandinavíu.
Næsta verkefni karlalandsliðsins eru vináttulandsleikir við Japan og Svartfjallaland í lok febrúar. Fyrri leikurinn er ekki á alþjóðlegum leikdegi og má búast við að leikmennirnir í þeim leik verði flestir úr þeim hópi sem æft hefur hér á landi síðustu daga.